Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Sunnudagur 27. október 2002 kl. 18:03

Hring (-avitlaust) torg?

Síðustu vikur hafa margir lýst óánægju sinni með hið nýja og óvænta hringtorg, sem búið er að setja á gatnamót Hafnargötu, Faxabrautar og Víkurbrautar. Kostnaður við það er áætlaður um 6 milljónir króna. Þegar málið er skoðað betur kemur í ljós að stjórnunarsérfræðingar meirihluta Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ virðast ekki hafa ráðið við verkefnið, segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarfulltrúi í grein til Víkurfrétta.Í fyrsta lagi er hluti af þessum gatnamótum þjóðvegur í þéttbýli og því á ábyrgð Vegagerðarinnar. Allar framkvæmdir hefði því þurft að vinna í samráði við Vegagerðina. Það var ekki gert. Vegagerðin vissi ekki af þessu hringtorgi fyrr en það var komið í gagnið og hafði því ekki samþykkt það fyrir sitt leyti. Hönnun hringtorgsins var heldur ekki gerð í samráði við Vegagerðina eins og rétt hefði verið að gera.
Í öðru lagi er kostnaður vegna framkvæmda á vegum, sem heyra undir Vegagerðina, oftast greiddur af Vegagerðinni. Þó eru dæmi um að sveitarfélög og Vegagerðin hafi skipt kostnaði í sameiginlegum verkefnum. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni hafa bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ ekki farið fram á þátttöku Vegagerðarinnar í kostnaði vegna hringtorgsins og virðist meirihlutinn því ekki telja ástæðu til þess að sækja fjármagn að einhverju eða öllu leyti upp í þessar 6 milljónir sem hringtorgið kostar.
Í þriðja lagi er hönnun hringtorgsins greinilega ábótavant. Það er svo þröngt að rútur og aðrir stórir bílar eiga erfitt með að aka um það og mörgum ökumanninum finnst ruglingslegt að aka inn í það og út úr. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er ekki víst hvort hringtorgið stenst kröfur Vegagerðarinnar og hafa starfsmenn Vegagerðarinnar ákveðið að kalla eftir upplýsingum um hönnun hringtorgsins frá Reykjanesbæ og fara ofan í saumana á málinu.
Af yfirlýsingum bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor, um sérfræðiþekkingu sína á opinberri stjórnsýslu, hefði mátt ætla að þeir hefðu ráðið við verkefni af þessari stærðargráðu þ.e. að láta hanna, byggja og fjármagna eitt stykki hringtorg á réttan hátt og í samráði við rétta aðila. Það virðist því miður hafa reynst þeim ofviða og því nauðsynlegt að fylgjast vel með þeim þegar kemur að stærri og flóknari verkefnum. Það mun ég gera.

Kjartan Már Kjartansson
bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Reykjanesbæ
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024