Aðsent

Hreinsum loftið - seljum rokið!
Jóna Sólveig Elínardóttir.
Föstudagur 27. október 2017 kl. 05:00

Hreinsum loftið - seljum rokið!

Ekki er ólíklegt að ríkið skuldi Reykjanesbæ ennþá plástur á þau miklu fjárhagslegu sár sem varnarliðið skildi eftir sig þegar það pakkaði saman og fór nánast á einni nóttu. Komi það í ljós mun ég berjast fyrir því með kjafti og klóm að sveitarfélaginu verði skilað til baka þeim verðmætum sem það var hlunnfarið um. Sama á auðvitað við um nágrannasveitarfélögin. Ég ætla hins vegar ekki að stunda þá ábyrgðarlausu framsóknarpólitík í aðdraganda kosninga að lofa Reykjanesbæ milljörðum króna í fébætur án þess að dæmið sé reiknað til enda.

Sölu fasteigna varnarliðsins er að ljúka um þessar mundir. Þess vegna hefur fjármálaráðherra, Benedikt Jóhannesson, ákveðið að ráðist verði í vandaða úttekt á fjárhagslegum áhrifum af umsýslu ríkisins á fyrrum varnarsvæðinu á sveitarfélögin sem hlut eiga að máli. Leiði úttektin í ljós að sveitarfélögin hafi borið skarðan hlut frá borði er mér að mæta. Ég er reiðubúin til að leggja mig alla fram við að knýja fram þá leiðréttingu sem heimamönnum ber og ég veit að í þeim efnum hef ég alla félaga mína í Viðreisn með mér.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það er sjálfsagt að leiðrétta afturvirkt og ekki síst ef um verulegar fjárhæðir er að ræða. Ennþá brýnna er hins vegar að horfa fram á við. Væntanlega er Ásbrú og annað nágrenni, við einn af best staðsettu flugvöllum veraldar, orðið verðmætasta landsvæði sem Íslendingar eiga. Tækifærin til að skapa þar veruleg verðmæti fyrir nærsamfélagið á komandi árum eru fjölmörg. Það er afar ánægjulegt að í burðarliðnum sé víðtækt samstarf sveitarfélaganna Reykjanesbæjar, Garðs og Sandgerðis og ríkisins í gegnum Isavia og Kadeco. Til þess að hámarka árangur þeirrar vinnu þarf að hreinsa loftið og blása til öflugrar sóknar án hrepparígs og sérhagsmunagæslu. Nú þegar hefur tekist að laða milljarða króna fjárfestingar í alls kyns atvinnustarfsemi inn á svæðið og verðmætin eru fólgin í fleiru en nálægðinni við flugvöllinn eingöngu. Meðal annars er rokið á Reykjanesi sem náttúruleg kæling í gagnaverum orðið að viðurkenndum „hlunnindum“ og til viðbótar bjóðum við þeim vistvæna raforku í kaupbæti.

Reykjanesbær og nágrenni hans á þannig gríðarlega spennandi og fjölbreytt tækifæri framundan. Þess vegna er spennandi að vera þingmaður í Suðurkjördæmi. Þess vegna bið ég um stuðning ykkar og heiti því að leggja mig alla fram í þeim verkefnum sem við blasa.

Jóna Sólveig Elínardóttir
Varaformaður Viðreisnar og oddviti flokksins í Suðurkjördæmi