Hreinsa strandlengjuna í Selvogi
Blái herinn og sendiráð Bandaríkjanna bjóða ykkur að taka þátt í fjöruhreinsun þann 31. ágúst á strandlengjunni í Selvogi, Ölfushreppi.
Þetta er þriðja árið sem Blái herinn og sendiráð Bandaríkjanna sameinast við að hreinsa fjörur og viljum við því bjóða ykkur að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni. Í ár verjum við deginum á strandlengjunni við Selvog í Ölfusi en þar munum við tína rusl sem verður svo ferjað í ruslagáma. Að hreinsun lokinni verður grillveisla í boði sveitarfélagsins Ölfuss og landeigenda.
Strandlengjunni verður skipt niður í nokkur svæði sem verkefnastjórar stýra. Landeigendur hjálpa til og leiðbeina okkur um svæðin. Áætlað er að hefja hreinsunina kl. 13:00.
Sendiráð Bandaríkjanna mun bjóða upp á rútuferð til og frá Selvogi sem fer frá Reykjavík kl. 11:00, en frekari upplýsingar um brottfararstað verða sendar út síðar. Fyrir þá sem mæta á einkabílum verður hist hjá tjaldsvæðinu við Strandarkirkjuafleggjaranum (GPS hnit: 63.830833, -21.677238). Við hvetjum fólk til að sameinast í bíla.
Mikilvægt er að staðfesta þátttöku sem fyrst, svo hægt sé að áætla hvað við þurfum mikið af mat og drykk. Vinsamlegast sendið staðfestingu á Tómas Knútsson, [email protected].
Athugið að klæða ykkur eftir veðri og hafa góða vettlinga meðferðis.
Við hvetjum ykkur til þess að taka þátt í þessu frábæra verkefni þar sem Bandaríkin og Ísland taka höndum saman og gera umhverfið betra.
Við hlökkum til að sjá ykkur þann 31. ágúst.
Kveðja,
Blái herinn og bandaríska sendiráðið á Íslandi