Hráskinnaleikur um Helguvík – jafnræðis verður gætt
Uppbygging á iðnaðarsvæðinu í Helguvík skiptir miklu máli til að skjóta nýjum og traustum stoðum undir atvinnulíf á Suðurnesjum til framtíðar. Uppi eru áform um fjölbreytta tegund iðnaðar. Nú þegar hefur Norðurál reist hús yfir væntanlegt álver, sem strandaði í bili á ágreiningi um orkuverð eftir að sveitarfélögin og ríkið seldu frá sér yfirráðin yfir HS orku. Á síðustu árum hafa verið gerðir fjárfestingarsamningar um bæði álver og kísilver á svæðinu.
Nú er komið að ríkisvaldinu að koma að uppbyggingunn. Því var ákveðið í ríkisstjórn að ganga til samninga um ívilnanir sem snúa að miklu leyti að hafnargerðinni.
Mestu skiptir auðvitað að Norðurál og HS orka ljúki löngu þrátefli um orkusöluna og setji framkvæmdir á fullt að nýju. Á því og engu öðru stoppaði verkið á sínum tíma. Heimatilbúinn vandi sem félögunum ber að leysa hratt og vel.
Hinsvegar skiptir aðkoma ríkisins að uppbyggingu innviða á svæðinu miklu máli, þ.e. hafnarmannvirkjum og vegagerð. Þar skal umfram allt ríkja jafnræði, lagalegt og pólitískt á milli landsvæða og einstakra iðnaðarsvæða. Óháð staðsetningu þeirra. Hvort sem byggt er á Bakka eða í Helguvík.
Því gerðum við sem unnið höfum um árabil að uppbyggingu í Helguvík skýlausa kröfu um það nú þegar samningar hafa verið gerðir vegna stóriðjuuppbyggingar á Bakka við Húsavík að ríkisvaldið komi með sambærilegum hætti að uppbyggingu innviða á iðnaðarsvæðinu í Helguvík. Nú þegar hafa fjárfestingarsamningar verið gerðir vegna verkefnanna en eftir stendur að ljúka samningum um aðkomu ríkis að höfninni og vegagerð.
Jafnræðið hefur verið staðfest af ríkisstjórn sem fól Katrínu Júlíusdóttir fjármálaráðherra að gera samning við Reykjanesbæ vegna ívilnana um höfn og vegi. Þetta skiptir miklu máli enda verulegir fjármunir í í spilinu við uppbyggingu innviðanna.
Katrín hefur eins og Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar lýst því afdráttarlaust yfir að jafnræði skuli ríkja á milli landsvæða og iðnaðarsvæða. Því eru samningarnir í góðum höndum, enda búið að greina hvað þarf að gera á svæðinu en sú vinna var sett af stað fyrir tæpu ári af þáverandi fjármálaráðherra Oddnýju Harðardóttur.
Jafnræði, pólitísku og lagalegu, um aðkomu ríkisins að gerð innviða í Helguvík var forsenda stuðnings okkar þingmanna Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi við frumvörp atvinnuvegaráðherra um ívilnanir vegna stóriðju þeirrar sem ráðherrann boðar nú á Bakka. Slíkt jafnræði er grundvallaratriði í allri ívilnun hins opinbera að uppbyggingu í atvinnulífi landsins.
Hinsvegar er það ósmekklegur hráskinnaleikur sem felst í bókun D og B lista í bæjarstjórn Reykjanesbæjar á dögunum þar sem látið er liggja að því þessa jafnræðis eigi ekki að gæta þar sem frumvarp um ívilnanirnar komu ekki á undan forsendum og samkomulagi um þær! Makalaus málflutningur, settur fram til að gera málið tortryggilegt í aðdraganda kosninga.
Uppbyggingin i Helguvík er hinsvegar of stórt mál til að tætast í sundur í skotgröfum flokkastjórnmála af lægstu gerð. Stöndum áfram saman að áformum og uppbyggingu líkt og undanfarin mörg ár, þvert á flokka og byggðir.
Björgvin G. Sigurðsson
þingmaður Samfylkingarinnar.