Hræðsluáróður, rangfærslur, rangtúlkanir!
Tilefni þessara skrifa er grein sem birtist á netmiðlinum Pressan.is þann 19. mars undir yfirskriftinni “Skaðsemi gosdrykkjaneyslu - hrollvekjandi staðreyndir sem fæstir vita!” Því miður er að finna í greininni margar rangfærslur og rangtúlkanir. Fyrst skal þess getið að greinin byggir fyrst og fremst á eftirfarandi vefsíðugrein: http://www.care2.com/greenliving/9-disturbing-side-effects-of-soda.html?page=1 sem finna má víða á veraldarvefnum í bæði styttri og lengri útgáfum og greinin sem um ræðir stenst á engan hátt lágmarks rannsóknarkröfur sem undirritaður telur að gera eigi til þeirra sem fjalla um heilsutengd málefni á opinberum vettvangi. Og því miður gerir greinarhöfundur sig sekan um að þýða greinina beint án þess að gera tilraun, að því er virðist, til að leita uppi hinar ætluðu frumheimildir og vega þær og meta. En slík vinnubrögð eru því miður alltof algeng þegar verið er að fjalla um heilsutengd málefni eins og í blöðum og tímaritum eða á margs konar vefsíðum og væri hægt að benda á fjölda tilvika því til staðfestingar en læt hér nægja að vitna til greinar sem birtist í DV þriðjudaginn 20. mars. Þar sem fjallað er um “Töfrafræin ótrúlegu” svo kölluð chia-fræ, en að sjálfsögðu búa fræin ekki yfir neinum töframætti heldur er hér um ósköp venjuleg fræ að ræða! Nú verður farið nánar í saumana á nokkrum vafasömum fullyrðingum og rangtúlkunum sem finna má í áðurnefndri grein.
LIÐUR 1: Í fyrsta lið greinarinnar er vitnað í rannsókn (1) þar sem fram kemur að mikil sykurneysla hafi neikvæð áhrif á fitusöfnun í líkama. Niðurstaða sem kemur ekki á óvart en jafnframt kemur fram í sömu rannsókn að neysla á dietgosi hefur ekki neikvæð áhrif þar á en einhverra hluta vegna er þess ekki getið! Það hefði þó átt að gera vegna þess að síðar í greininni er komið fram með fullyrðingar þess efnis að dietgos sé afskaplega fitandi! Rannsóknin sem um ræðir var framkvæmd á 47 feitum einstaklingum sem neyttu 1L af ákveðnum drykk á dag í 6 mánuði. Fólkinu var skipt í fjóra hópa. Hópur 1 drakk sykraðan gosdrykk; hópur 2 drakk dietgos; hópur 3 drakk léttmjók og hópur 4 drakk vatn. En hafa má hugfast að einn lítri af sætum gosdrykk gefur hátt í 500 hitaeiningar sem er um ¼ af meðal orkuþörf kvenna!
Niðurstöður:
1. Reglubundin og mjög mikil neysla á sykruðum gosdrykkjum, miðað við neyslu á léttmjólk, gosdrykk með aspartami og vatni hefur umtalsverð neikvæð áhrif á fitusamsetningu lifrar, fitu í beinagrindarvöðvum, magn þríglýseríða í blóði og kólesteról.
2. Ekki var sýnt fram á marktækan mun varðandi heildarfitumagn milli hópanna.
3. Mjólk og diet-gos hafði lækkandi áhrif á blóðþrýsting (slagbilþrýstinginn) miðað við ef drukkið var sykrað gos.
4. Að öðru leyti virðist sem neysla diet drykkja hafi svipuð áhrif og neysla á vatni.
LIÐUR 2: Í lið 2 er fjallað um dietbumbuna og þar fullyrt m.a. að dietgos sé bráðfitandi. Og því til sönnunar er vitnað til rannsóknar (2) þar sem 475 fullorðnum einstaklingum var fylgt eftir í tíu ár þar sem í ljós kom m.a. að þeir sem höfðu drukkið umtalsvert magn af dietgosi hefðu uppskorið mun meira mittismál en þeir sem ekkert gos drukku. Hér skal haft í huga að þrátt fyrir að þessi ákveðna rannsókn hafi sýnt fram á að þeir sem drukku dietgos fitnuðu frekar en þeir sem drukku það ekki er ekki þar með sagt að drykkja diet-gossins sé ástæða þess að það hafi fitnað. Enda hvernig ætti það að geta gerst þar sem hitaeiningafjöldi í einni ½ lítra dietgosflösku eru um tvær á móti um 225 í venjulegu gosi. Við fitnum að sjálfsögðu af of mörgum hitaeiningum, það hlýtur öllum að vera ljóst? Hins vegar er þekkt að neytendur dietgoss er ekki síst fólk sem er að berjast við aukakílóin (3). Hvað þetta þýðir er að þó að fólk fitni ekki af dietdrykkjum leitar það frekar í slíka drykki heldur en sykraða eftir því sem það fitnar í þeirri viðleitni að forðast enn frekari þyngdaraukningu. En það tekst ekki alltaf þar sem fólk einfaldlega borðar of mikið af orkuríkum mat og það þrátt fyrir að hafa neytt dietgoss! Einnig fullyrðir greinarhöfundur í lið 2 og er þá vitnað í músarannsókn (4) að gervisætuefnið aspartam hafi hækkað blóðsykurinn og með því valdið “gríðarlegri þyngdaraukningu”. Þetta er ekki rétt þar sem í niðurstöðum rannsóknarinnar segir að þær mýs sem neyttu aspartams væru bæði léttari og fitusamsetning blóðsins hagstæðari! Og varðandi insúlín, sem hefur áhrif á blóðsykurinn, að þá komast rannsakendur reyndar að þeirri niðurstöður að enginn tölfræðilegur marktækur munur er á insúlínframleiðslu þegar bornar eru saman mýs sem neyta drykkjar með aspartami miðað við þær sem neyta vatns.
LIÐUR 3 fjallar um hin hræðilegu “Cola litarefni” sem sögð eru krabbameinsvaldandi og þau nefnd með nafni – 2-methylimidazole og 4-methylimidazole og fullyrt að með því að innbyrða aðeins 16 míkrógrömm af 4-methylimidazole á dag aukist talsvert líkur á krabbameini og svo er því bætt við að í hálfum lítra af Cola drykk sé 165 míkógrömm af efninu. Með öðrum orðum að markmið þessar fullyrðingar hlýtur að vera það að sýna fólki fram á að neysla goss sé svo sannarlega krabbameinsvaldandi! En er það svo? Í það minnsta tókst undirrituðum ekki að finna eina einustu rannsókn sem tengir neyslu þessara efna við krabbamein í mönnum. Hér í reynd er verið að vitna í rannsókn á músum og þeir sem hafa gagnrýnt þá rannsókn hafa m.a. bent á það að fullorðinn maður þurfi að neyta meira en 2900 dósa af gosdrykk á dag í 70 ár til að fá hlutfallslega það magn í líkamann sem jafngildir því sem mýsnar neyttu í þessari tilteknu rannsókn. En þess má geta að efnið er einnig að finna í kaffi, sumum tegundum bjórs, bökunarvörum og melassa. (5)
LIÐUR 4: Gefið er í skyn að gosþamb hraði öldrun og stytti lífið þar sem mikil neysla fosfórs geti valdi hjarta- og nýrnabilunum, vöðvatapi og beinþynningu. Hér skal tekið fram að undirrituðum tókst ekki að finna neina rannsókn sem studdi þessar glannalegu fullyrðingar og þess má til fróðleiks geta að fyrir mörgum árum var sú kenning mjög vinsæl að hlutfall kalks og fosfórs þyrfti að vera í ákveðnum tilgreindum hlutföllum því að ef fosfórneyslan væri hlufallslega mun meiri en kalkneyslan myndi það leiða til lélegri beinheilsu. Aftur á móti hafa rannsóknir leitt í ljós að það skiptir litlu sem engu máli og að ástæðu lélegri beinheilsu þeirra sem neyta mikils goss megi ekki síst rekja til þess að þeir hinir sömu drekka litla mjólk. Og til gaman má geta þess að í hálfum lítra af gosi er um 90mg af fosfóri; um 400 mg í 200 grömmum af kjúklingi og um 250 milligrömm í 2,25dl af jógúrti. (6)
LIÐUR 5: Fjallað um efni sem kalast brómeruð jurtaolía (BVO) og er m.a. að finna í sítrusgosdrykkjum og íþróttadrykkjum framleiddum í Bandaríkjunum og fullyrt að í miklu magni leiði neysla þess til minnistaps, taugaröskunar, hegðunarvandamála, ófrjósemi og vefjaskemmda í hjarta. Hér er óbeint verið leiða líkum að því að með því að neyta drykkja eins og íþróttadrykkja að þá auki það líkur á öllum þessum hræðilegu kvillum. Eða hvað? Staðreyndin er hins vegar sú að fjöldinn allur af efnum sem notast er við til matvinnsluframleiðslu eru hættuleg ef neysla þeirra er “mjög mikil” en hættulaus í “litlu” magni. Það er meira að segja hægt að drekka svo mikið af vatni að skaði hljótist af! Eins og staðan er í dag að þá er efnið leyft í viss drykkjarföng samkvæmt viðmiðunum sem settar hafa verið af Fæðu- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna (FDA). (7)
LIÐUR 7: Fullyrt: ”...sjálfstætt starfandi vísindamenn hafa þó staðfest með tilraunum á dýrum að neysla þeirra á erfðabreyttu korni sem finnst í gosdrykkjum hafi valdið meltingarskaða, ófrjósemi og hraðöldrun.” Hér er vitnað í: Genetically modified (GM) foods - renewed threat to Europe. Hafa ber í huga að þau samtök sem hér um ræðir berjast hatrammri baráttu gegn erfðabættum afurðum og umræða þeirra litast nokkuð að því. Undirritaður vill taka skýrt fram að hann hefur á engan hátt afneitað þeim möguleika að neysla erfðabættra afurða kunni að vera heilsuspillandi. Rannsóknir munu væntanlega leiða það í ljós. Hér fylgir tilvísun í þrjár greinar (8, 9, 10). Sú fyrsta fjallar um jákvæða þætti og neikvæða þætti sem tengjast neyslu erfðabættra afurða. Sú næsta fjallar um þá miklu minnkun sem hefur orðið á notkun skordýraeiturs í kjölfar aukinnar ræktunar á erfðabættum afurðum sem og minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda. Og að lokum er vísað í vandaða samantektarrannsókn þar sem rannsóknir sem hafa verið gerðar á þessu sviði eru metnar og skoðaðar ofan í kjölinn og komist að þeirri niðurstöðu að enginn líffræðilegur marktækur munur hafi mælst á þeim gildum sem prófað var fyrir þegar borin voru saman dýr sem neyttu erfðabætt fóður annars vegar og “hefðbundins” fóðurs hinsvegar.
Að lokum skal tekið fram að mikil gosdrykkjaneysla er að sjálfsögðu ekki holl heilsu okkar og um það geta líkast til allir verið sammála enda snýst eitt lýðheilsumarkmiðanna um það að draga úr sykurneyslu og þar með neyslu á sykruðum gosdrykkjum. Engu að síður ber að varast öfgakenndan hræðsluáróður þar sem vafasömum fullyrðingum og rangtúlkunum er gert hátt undir höfði. Slík “fræðsla” þjónar engum góðum tilgangi!
Ólafur Gunnar Sæmundsson, næringarfræðingur
Heimildir
(1) Maersk M, Belza A, Stødkilde-Jørgensen H, Ringgaard S, Chabanova E, Thomsen H, Pedersen SB, Astrup A, Richelsen B. Am J Clin Nutr. 2012 Feb;95(2):283-9. Epub 2011 Dec 28. Sucrose-sweetened beverages increase fat storage in the liver, muscle, and visceral fat depot: a 6-mo randomized intervention study.
(2) "Diet Soft Drink Consumption Is Associated with Increased Waist Circumference in the San Antonio Longitudinal Study of Aging. "Sharon P Fowler, Ken Williams, Helen P Hazuda.
(3) Ketan Patel. 2011, júní. “The Effectiveness of Food Taxes at Affecting Consumption in the Ovese: Evaluating Soda Taxes”. Northwestern University, USAhttp://www.northwestern.edu/newscenter
(4) "Aspartame Consumption Is Associated with Elevated Fasting Glucose in Diabetes-Prone Mice." Sharon Parten Fowler, Ganesh V Halade, Gabriel Fernandes.
Einnig fullyrðir Sverrir að samkvæmt músarannsókninni,
(5) http://www.emaxhealth.com/1506/will-your-coke-or-pepsi-soft-drink-really-cause-cancer
(6) Whitney, E. og R.R. Sharon. 2011. “Understanding Nutrition“. Kafli 12 – Water and the Major Minerals (Phosphorus), bls. 406-407.
(7) (http://www.accessdata.fda.gov/scripts/cdrh/cfdocs/cfcfr/CFRSearch.cfm?FR=180.30
(8) http://www.webmd.com/food-recipes/features/are-biotech-foods-safe-to-eatAre Biotech Foods Safe to Eat? Most Americans have eaten genetically modified foods without knowing it, but are they safe?
(9) M Crops. 2011 Jan-Mar;2(1):34-49. Global impact of biotech crops: environmental effects 1996-2009.
(10) Food Chem Toxicol. 2008 Mar;46 Suppl 1:S2-70. Epub 2008 Feb 13. Safety and nutritional assessment of GM plants and derived food and feed: the role of animal feeding trials. EFSA GMO Panel Working Group on Animal Feeding Trials.