Hræðslan við Gunnar
Ekki veit ég hvað hljóp í bæjarstjórann okkar og hans stuðningsmenn þegar Gunnar Þórarinsson, formaður bæjarráðs og samstarfsmaður Árna Sigfússonar allt síðasta kjörtímabil, vogaði sér að bjóða sig fram í 1-2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ. Síðan tók steininn úr þegar Gunnar vogaði sér að hafa skoðun á því að hagstætt gæti verið fyrir bæjarfélagið að ráða óháðan og ópólitískan fagmann í stöðu bæjarstjóra. Minnir mig að ég hafi lesið í grein að þeir í Árborg hefðu gert það með góðum árangri.
Ljóst var að Gunnar myndi eiga við ramman reip að draga, sérstaklega miðað við þær óvenjulegu leikreglur sem stuðningsmenn Árna mótuðu með birtingu auglýsingar honum til stuðnings. Þar var veifað nöfnum allra formanna sjálfstæðisfélaganna og annarra frambjóðenda á listanum, daginn eftir að frambjóðendur höfðu fundað og komið sér saman um að viðhafa heiðarlega baráttu. Örvænting? Ég spyr. Sumir myndu frekar nota orðið siðleysi.
Eftir að hafa farið yfir minnispunkta frá fundum kjörnefndar, sem ég átti sæti í, varð ég sífellt sannfærðari um að meginmarkmið hluta nefndarinnar hafi verið að koma Gunnari frá. Fyrst með því að efast um heilindi hans, láta að því liggja að ekki væri ekki hægt að treysta honum til að vinna með meirihlutanum, þrátt fyrir góða reynslu sl. 4 ár af samstarfinu við Gunnar. Auk þess hafði Gunnar lýst því yfir á sameiginlegum fundi formanns nefndarinnar og undirritaðs og síðan á fundi Gunnars með kjörnefnd og Árna, að hann hafi átt gott samstarf við Árna og félaga sína í meirihlutanum og ekkert væri því til fyrirstöðu að svo yrði áfram.
Meirihluti nefndarinnar sýndi svo enn betur hvað undir bjó með því að bjóða Gunnari 7. sæti með Árna í því 6. sem baráttusæti. Þessi flétta gekk út á að ef Gunnar yrði inni eftir kosningar, þyrfti vart að hafa áhyggjur af því að hann yrði til vandræða, og ef aðeins 6 sæti næðust inn væri Gunnar úti.
Sjónarspilið var svo fullkomnað með því að bjóða Gunnari 6. sætið á næstsíðasta fundi kjörnefndar eingöngu til að réttlæta þann fyrirslátt meirihluta nefndarinnar að hann væri „ósamvinnuþýður“. Þetta gerði meirihluti nefndarinnar vitandi vits að Gunnar var búinn að lýsa því yfir að hann tæki ekki sæti aftar en það 5. þar sem hann vildi ekki virða að vettugi vilja kjósenda í prófkjöri. Minnihluti nefndarinnar lagði til að úrslit prófkjörs yrðu látin standa og kona kæmi inn í 7. sætið fyrir Einar Magnússon eins og hafði komið fram á fyrstu fundum nefndarinnar eftir prófkjör. Sú tillaga fékk ekki hljómgrunn, hvorki þá né á aðalfundi fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjanesbæ. Á endanum lagði formaður nefndarinnar fram tillögu um að setja Gunnar út af listanum og í kosningu féllu atkvæði 5-2. Það er mín tilfinning að miðað við atburðarrás funda kjörnefndar þá hafi það verið undirliggjandi frá upphafi að Gunnar ætti ekki að vera á listanum. Handritið var löngu frágengið.
Það má líka spyrja: Fyrst prófkjör var ekki bindandi með 49% þátttöku, hvers vegna var niðurstaða prófkjörs þá aðalástæðan fyrir því að Gunnar og Einar voru látnir víkja? Ekki man ég til þess að nokkurn tíma fyrr hafi verið hróflað eins mikið við niðurstöðu prófkjörs með þetta góðri þátttöku. Það var kosið um uppstillingu eða prófkjör, meirihlutinn vildi fara þá lýðræðislegu leið að hafa prófkjör og tæplega helmingur Sjálfstæðismanna, sem láta sig þessi mál varða, röðuðu í 7 fyrstu sætin. Ekkert mark er tekið á þeirra vilja. Þetta er ný tegund af lýðræði sem mér hugnast ekki.
Þórður Karlsson, Reykjanesbæ.