Hræddir við lýðræðið
- nýr meirihluti fallinn á fyrsta prófinu.
Á síðasta bæjarráðsfundi hafnaði meirihluti bæjaráðs Reykjanesbæjar ósk Framsóknar um að fá að tilnefna áheyrnarfulltrúa í sex nefndir þrátt fyrir skýrar heimildir í samþykktum Reykjanesbæjar og Sveitarstjórnarlögum.
Í stefnuskrám allra framboða við síðustu kosningar komu fram áherslur á aukið lýðræði og gagnsæi. Undirritaður telur að það hefði verið í fullu samræmi við þær áherslur að veita Framsókn áheyrnarfulltrúa í sex fastanefndir sveitarfélagsins. Nú kýs nýr meirihluti strax í upphafi kjörtímabilsins að ganga á bak kosningaloforða sinna um aukið íbúalýðræði, opnari og gagsærri stjórnsýslu og aukin áhrif íbúa á nærumhverfi sitt. Þetta er heldur ekki í samræmi við orð og óskir forseta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar um að allir vinni saman.
Þeir einstaklingar sem gáfu kost á sér og tilnefndir voru sem áheyrnarfulltrúar Framsóknar í nefndum eru allir með brennandi áhuga á samfélaginu og tilbúnir að vinna að því að gera Reykjanesbæ betri og meiri. Þessu vinnuframlagi hafnar meirihluti Beinnar leiðar –fyrir fólkið á bænum, Samfylkingar og Nýs afls.
Fordæmi eru fyrir áheyrnarfulltrúum í öllum stærri sveitarfélögum og er því óskiljanlegt að nýr meirihluti skýlir sig á bak við rök sem ganga þvert á stefnuskrá þeirra.
Eftir að hafa skoðað samþykktir og haft samband við sveitarstjórnarfulltrúa í fjórum sveitarfélögum er niðurstaðan að almenna reglan er sú að heimila áheyrnafulltrúa minnihluta. Sjá eftirfarandi töflu.
Eru fordæmi fyrir áheyrnarfulltrúa í bæjarráði og nefndum?
Sveitarfélag |
Bæjarráð |
Nefndir |
Kópavogur |
Já |
Já |
Reykjavík |
já |
já |
Hafnarfjörður |
já |
já |
Akureyri |
já |
já |
Þetta má staðfesta með því að lesa samþykktir viðkomandi sveitarfélaga.
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum og samþykktum Reykjanesbæjar er heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa og varamenn þeirra í ráð og nefndir. Svo virðist að meirihlutinn sé hræddur við lýðræðið sem hann talaði fjálglega um í kosningaloforðum sínum. Með því að hafna sjálfsögðum rétti Framsóknar fellur hann á fyrsta prófinu. Traðkar á lýðræðinu. Upphafið lofar ekki góðu.
Kristinn Þór Jakobsson
Bæjarfulltrúi Framsóknar í Reykjanesbæ