Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Hraðamælingar við grunnskólana í umdæminu
Sunnudagur 18. nóvember 2007 kl. 11:24

Hraðamælingar við grunnskólana í umdæminu

Næstu tvær vikurnar mun lögreglan á Suðurnesjum vera með sérstakt umferðarátak í nágrenni við grunnskólana í öllum sveitarfélögum umdæmisins.  Þessar tvær vikur verður sérstaklega hugað að hraðakstri jafnt á skólatíma sem og síðdegis og á kvöldin.  Skólarnir eru mikið notaðir fyrir æskulýðsstarf og eru börn og ungmenni því oft á ferðinni við skólana utan hins venjulega skólatíma.  Í mörgum sveitarfélögum eru íþróttahúsin í skólahverfunum og því nauðsynlegt að halda hraða niðri á öllum tímum.
 
Sýnileg löggæsla vs. hraðamælingar í ómerktri lögreglubifreið
 
Lögreglan mun vera mjög sýnileg í skólahverfunum þessar tvær vikur.  Hraðamælingar munu einnig fara fram í ómerktum lögreglubílum.  Lögreglan á Suðurnesjum hefur keypt nýtt Lacertæki til hraðamælinga.  Það hentar sérstaklega vel þar sem erfitt er að koma fyrir lögreglubifreið, bæði merktri sem ómerktri, í bifreiðstæði til hraðamælinga.
 
Sameiginlegt átak lögregluliða á suðvesturlandi ásamt suðurlandi og vesturlandi
 
Lögreglan á Suðurnesjum, Höfuðborgarsvæðinu, Akranesi, Borgarnesi, Stykkishólmi, Selfossi og Hvolsvelli standa sameiginlega að þessu átaki.  Settur var upp umferðargreinir við einn grunnskólann og niðurstaða þeirra athugunar gaf tilefni til þessa átaks.  Umferðargreinir mælir ökuhraða, fjölda ökutækja og á hvaða tíma þeim var ekið um götuna.
 
Ökum varlega við skólana
 
Lögreglan beinir þeim tilmælum til ökumanna að aka varlega við skólana á öllum tímum.  Við marga skólana hefur hámarkshraði verið lækkaður úr 50 km í 30 km.  Sektir vegna hraðaksturs hafa hækkað mikið.  Svipting ökuréttinda liggur við því að aka á tvöföldum hámarkshraða.  Í þessu sambandi má nefna að í septembermánuði voru sjö ökumenn sviptir ökuleyfi á staðnum eins og sagt er fyrir að aka á yfir 60 km hraða á Skólavegi og Faxabraut í Reykjanesbæ en Holtaskóli, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, íþróttahúsið við Sunnubraut og Sundmiðstöð Keflavíkur liggja við eða eru í nágrenni við þessar götur.
 
 
Virðingarfyllst,
Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024