Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Miðvikudagur 6. desember 2000 kl. 11:52

Hörmungar á Reykjanesbraut

Enn megum við Suðurnesjamenn búa við hörmungar á Reykjanesbraut. Ég reyndi að vekja ráðamenn til umhugsunar um Reykjanesbrautina fyrir rúmum þremur árum en þá þurfti ég að aka þennan hættulegasta veg Íslands nær daglega um nokkra hríð og við það mega margir búa vinnu sinnar vegna. Nú get ég ekki lengur orða bundist.Reynt er að friðþægja okkur með því að brautin sé komin á vegaáætlun, stefnt er að verklokum árið 2007.
Kristján Pálsson alþingismaður má eiga það að hann er að reyna að sprikla í þessu máli þegar við á. En að sveitastjórnir hér á Suðurnesjum skuli ekki vera búnar að stilla saman strengi sína fyrir löngu og setja hnefann í borðið er hreint grátbroslegt.
Formaður samgöngunefndar hefur lagt mikla áherslu á jarðgangagerð til Vestmannaeyja. Dæmi nú hver fyrir sig hvert hugur stefnir. Nei, Suðurnesin eru vart á landakorti slíkra herra. Þá er það sannfæring þessa sama manns að framkvæmdin taki þetta langan tíma. Mér er nær að halda að verkið eigi að vinna með skóflu og hjólbörum. Á fáum eða engum stað á landinu er jafn hagkvæmt að byggja slíkan veg þar sem stutt er í alla efnistöku. Framkvæmdir sem þessar eru ekki mjög þensluvaldandi ef skálka á í því skjólinu. Þetta er fyrst og fremst tækjavinna.

Milljón á dag í 25 ár.
Nú liggur fyrir að kostnaður við þessa framkvæmd eru 2,4 milljarðar eða álíka og tveir frystitogarar. Á sama tíma þykir sjálfsagt að eyða 8 milljörðum í Reykjavíkurflugvöll sem er brágðabirgðarframkvæmd. Tölur sem nefndar eru í því sambandi er u.þ.b. 25 ár sem gerir milljón á dag þar til hann verður að víkja hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Flestar þjóðir sem við berum okkur saman við hafa á undanförnum árum eytt stórfé í að byggja nýja flugvelli á svæðum utan stórborga. Ég get ekki að því gert að mig hefur lengi grunað að með því að halda okkur Suðurnesjamönnum nánast í herkví með þessum hætti hefur reynst mun auðveldara að færa rök fyrir 8 milljarða flugvelli inn í miðri Reykjavík.
Ég eins og flestir Suðurnesjamenn á vini og vandamenn á Reykjavíkursvæðinu, hluti af þessu fólki treystir sér ekki til að koma í heimsóknir til ættingja hér syðra yfir vetrarmánuðina vegna hættu sem er því samfara að aka Reykjanesbrautina. En fyrir okkur sem búum hér er oft ekkert val. Eigum við ekki rétt á að búa við meira öryggi ?
Í Helguvík er fullkomnasta eldsneytisstöð landsins örskammt frá Keflavíkurflugvelli. Af hverju þarf að flytja allt eldsneyti sem notað er á Keflavíkurflugvelli eftir Reykjanesbrautinni ? Eftir hverju bíða menn ? Hvað með umhverfisráðuneytið ? Fyrr en seinna hlýst af þessu stórslys. Er rétt að viðkomandi olíufélög fá greitt flutningsgjald fyrir ódæðið ? Það er ekki langt síðan að gert var grín að Sambandinu sáluga fyrir að vilja ekki selja frá sér ketið því geymslugjaldið ku hafa gefið betur af sér.
Nú er ljóst að öll samkeppnisstaða byggða sunnan Hafnafjarðar batnaði mikið við þessar samgöngubætur. En ef til vill er það meinið. „Þið hafið Völlinn er það ekki“ Að lokum skora ég á alla Suðurnesjabúa að fara alls ekki til Reykjavíkur að versla fyrir jólin það gæti orðið til þess að okkur áskotnaðist liðsauki.

Sturlaugur Ólafsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024