Horfum til framtíðar
Á heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Río de Janeiro árið 1992 skuldbundum við Íslendingar okkur siðferðilega og pólitískt til að vinna markvisst að sjálfbærri þróun, jafnt fyrir landið í heild sem einstök sveitarfélög. Staðardagskrá 21 er áætlun um sjálfbæra þróun sveitarfélaga um heim allan á 21. öld. Sjálfbær þróun felur í sér að bæta lífskjör allra án þess að það skerði möguleika komandi kynslóða.
Frá árinu 1998 hefur Samband íslenskra sveitarfélaga aðstoðað sveitarfélög við gerð staðardagskrár. Reykjanesbær og Vatnsleysustrandarhreppur undirrituðu strax í byrjun svonefnda Ólafsvíkuryfirlýsingu um að hefjast handa. Vinna fór af stað í Reykjanesbæ undir forystu þáverandi bæjarstjórnar og kom töluverður hópur sjálfboðaliða að því verki í byrjun. Ekki hefur tekist að ljúka því verki og hefur ekkert til þess spurst lengi.
Nú hafa 20 íslensk sveitarfélög (þ.á.m. þau stærstu) lokið fyrstu umferð staðardagskrár 21. Það þýðir að sveitarstjórn hefur samþykkt fyrstu útgáfu staðardagskrárskýrslu og byrjað er að vinna samkvæmt henni. Ekkert þessara sveitarfélaga er á Suðurnesjum. Það er sorgleg staðreynd og bendir til þess að við sem hér búum horfum ekki sem skyldi til framtíðar - að hér ríki gamaldags hugsunarháttur.
Það er töluvert átak í hverju sveitarfélagi að koma staðardagskrá 21 af stað. Það krefst nýrrar hugsunar. Ekki er nóg að horfa á næsta kjörtímabil heldur þarf að horfa 10-20 ár fram í tímann – helst heila öld! Ekki er nóg að hver nefnd eða deild horfi á sitt svið einangrað heldur þarf að líta á þróun alls samfélagsins í heild. Ekki er nóg að fela ákveðnum starfsmönnum eða sérfræðingum verkið því staðardagskrá á að vera eign samfélagsins alls.
Málið snýst um að virkja íbúana til að móta sína eigin framtíð – og um leið heimsbyggðarinnar allrar. Í sumum stórum sveitarfélögum hafa verið haldin sérstök íbúaþing í því skyni. Það getur reynst erfitt að koma fólki af stað því margir trúa því ekki að það verði tekið mark á hugmyndum þeirra og byggja þar jafnvel á biturri reynslu. En svo fer boltinn að rúlla….
Það kostar vinnu og peninga að koma staðardagskrárhjólinu af stað en þegar það fer að snúast næst meiri árangur fyrir minni pening. Höfuðtilgangur staðardagskrár er að komast hjá sóun og tvíverknaði. Málið er að nýta auðlindirnar skynsamlega og stilla krafta samfélagsins saman til framtíðar svo ávinningur eins bitni ekki á öðrum.
Staðardagskrá 21 er djörf áskorun á okkur öll. Þar bíða spennandi framtíðarverkefni. Mál er að hefjast handa.
Þorvaldur Örn Árnason,
líffræðingur og formaður Vinstrigrænna á Suðurnesjum