Hörð barátta um þriðja sætið
Baráttan um þriðja sætið á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi verður að öllum líkindum hörð, en þar munu takast á Drífa Sigfúsdóttir úr Reykjanesbæ og Ísólfur Gylfi Pálmason alþingismaður. Einnig er rætt um Árna Magnússon framkvæmdastjóra Framsóknarflokksins úr Hveragerði og Helgu Sigrúnu Harðardóttur verkefnastjóra frá Reykjanesbæ í þriðja sætið, en hún tilkynnti framboð fyrir jól. Samkvæmt heimildum Víkurfrétta þykir ljóst að Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra verði í fyrsta sæti og Hjálmar Árnason alþingismaður verði í öðru sætinu. Framboðsfrestur rennur út 12. janúar nk. en kosið verður um röðun á listann á aukakjördæmisþingi 19. janúar og verður kosið um hvert sæti fyrir sig.