Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Miðvikudagur 27. nóvember 2002 kl. 14:51

Hörð barátta milli Árna og Kristjáns

Í kjölfar tillögu kjörnefndar Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi um framboðslista fyrir næstu alþingiskosningar þar sem ekki er gert ráð fyrir Kristjáni Pálssyni, er mikil barátta á milli fylkinga Árna Ragnars Árnasonar og Kristjáns Pálssonar. Í Víkurfréttum sem kemur út á morgun birtast ítarleg viðtöl við Kristján og Árna um málið. Í viðtalinu segir Árni m.a.: „Ég get alveg skilið hvern sem er sem lendir í þessari aðstöðu, en ég veit ekki betur en að það eigi enginn þingsæti og þessi skipan á listann byggir á trausti fólks. Það segir mér enginn annað en að það fólk sem starfar í kjörnefndinni geri það af heiðarleika og hafi að baki trúnaðarsamtöl við mjög marga af trúnaðarmönnum flokksins um allt kjördæmið. Ég þekki vel hvernig svona vinna fer fram.“ Kristján Pálsson segir m.a. í viðtali sem birtist á morgun: „Ég held að þetta sé klaufaskapur og í rauninni mistök við skipulag á þessu upphaflega. Það er verið að ganga út frá því að skipa á listann eftir hólfum, en ekki eftir fólki. Það er náttúrulega óásættanlegt að Suðurnesjamenn hafi ekki meira vægi á listanum en uppstillingarnefndin gerir ráð fyrir.“ Víkurfréttir hafa leitað til nokkurra aðila vegna málsins og viðbrögðin hafa verið mjög misjöfn. Einn viðmælenda blaðsins sagði: „ Ég hef aldrei verið góður í að skilja hvað er um að vera í Sjálfstæðisflokknum og geri það svo sannarlega ekki núna. Þessi uppákoma er búinn að veikja flokkinn í kjördæminu, hvernig sem málið verður leyst.“ Í þeim samtölum sam blaðamenn Víkurfrétta hafa átt við íbúa Suðurnesja síðustu daga er það almennt mál manna að þeim finnist hlutur Suðurnesja rýr á lista Sjálfstæðisflokksins miðað við að rúmlega 40% kjósenda í kjördæminu koma af Suðurnesjum: „Ég vil fá að heyra rök kjörnefndarinnar. Þeir hljóta að vera með góð rök fyrir því að henda Kristjáni út og þau vil ég fá að heyra,“ sagði annar viðmælandi blaðsins. Einn viðmælenda sem þekkir vel til Sjálfstæðisflokksins á Suðurnesjum sagði að það væru ekki mörg fordæmi fyrir því að tillögum uppstillinganefnda væri hnikað. Fram hafa komið sjónarmið að tillögur kjörnefndar séu byggðar á svokallaðri hólfaskiptingu, en með þeirri skiptingu er tekið mið af einstökum hólfum í kjördæminu, þar sem Suðurnesin eru eitt hólf. Víkurfréttir tóku saman lista yfir mannfjöldatölur í Suðurkjördæmi og ef litið er á þær tölur sem eru frá 1. desember 2001 kemur í ljós að íbúar í öllu kjördæminu eru 40.389 talsins. Á Suðurnesjum eru 16.727 íbúar eða rúmlega 41% íbúa kjördæmisins. Í Árnessýslu eru íbúarnir 12.583 eða rúmlega 31% íbúa og í Vestmannaeyjum eru íbúarnir 4.458 eða 11% íbúa kjördæmisins. Í Rangárvallasýslu búa 3.217 íbúar eða tæp 8%, í Austur-Skaftafellssýslu eru íbúarnir 2.336 eða tæp 6% og Vestur-Skaftafellssýslu eru íbúarnir 1.068 eða rúm 2,5% íbúa kjördæmisins.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024