Höldum okkur við efnið
Eitt af merkjum vorsins er þegar ársreikningar sveitarfélaganna eru lagðir fram. Einkenni umræðunnar sem á eftir kemur hefur hingað til markast af hvort menn eru í meirihluta eða minnihluta. Þeir sem með meirihlutavaldið fara, draga fram það sem helst getur talist þeim til tekna, á meðan minnihlutinn gagnrýnir það sem honum þykir að betur megi fara. Umræðan lendir oftar en ekki í deilum um keisarans skegg þar sem sýnin á hina raunverulegu stöðu og ábyrgð glatast í flokkspólitískum deilum.
Ársreikningur Reykjanesbæjar fyrir árið 2011 liggur nú fyrir. Hann er greinilega hægt að túlka á marga vegu eins og upplifa hefur mátt á íbúafundum bæjarstjórans í Reykjanesbæ. Með hjálp glærusýningar og blöðrusleppinga er látið að því liggja að rekstur bæjarins sé til fyrirmyndar og að aðeins eitt bæjarfélag í landinu standist samanburð þar að lútandi. Garðabær.
Hver íbúi í Reykjanesbæ skuldar 1.637.000 krónur vegna rekstrar bæjarsjóðs
Álagningarprósenta útsvars í Garðabæ er 13,66% á meðan hún er fullnýtt í Reykjanesbæ 14,48%.
Rekstrartekjur bæjarsjóðs Reykjanesbæjar voru árið 2011. 626.000. kr. á hvern íbúa. Rekstrarkostnaður bæjarsjóðs Reykjanesbæjar var 623.000 kr. á hvern íbúa. Hvernig líta þessar tölur út hjá samanburðarsveitarfélagi meirihlutans Garðabæ.
Rekstrartekjur bæjarsjóðs Garðabæjar voru árið 2011. 557.000 kr. á íbúa.
Rekstrarkostnaður bæjarsjóðs Garðabæjar voru árið 2011. 532.000 kr. á íbúa.
Þegar þannig er litið á málið er samanburðurinn ekki slæmur, en þegar litið er á hvað að baki liggur skilja leiðir. Af rúmlega 8,8 milljarða rekstrartekjum bæjarsjóðs Reykjanesbæjar eru rúmlega 2,5 milljarðar tilkomnir vegna sölu eigna, framlags úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga og niðurskurðar launa sem bitnuðu þungt á starfsmönnum Reykjanesbæjar. Hjá samanburðarsveitarfélagi meirihluta sjálfstæðismanna í Garðabæ er þessi tala rúmlega 1 milljarður króna.
Það sem þó skekkir myndina enn meira og sýnir í raun firringuna á bak við samanburðinn er einmitt það sem meirihluti sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ sleppir að sýna þegar samanburðurinn er gerður. Það eru skuldirnar. Til að sanngirni sé gætt ber þó að nefna að móti skuldum Reykjanesbæjar standa illseljanlegar eignir . Það kemur því í hlut bæjarbúa að greiða skuldirnar.
Skuld hvers íbúa í Reykjanesbæ vegna rekstur bæjarsjóðs eru krónu 1.637.000 kr og um það bil 2.653.000 kr vegna samstæðu A og B-hluta.
Skuld hvers íbúa í Garðabæ er hins vegar 523.000 vegna reksturs bæjarsjóðs og 575.000 vegna samstæðu. Vilja menn halda samanburðinum áfram?
Skuldahlutfallið
Meirihlutanum í Reykjanesbæ hefur orðið tíðrætt um árangur sinn í að lækka skuldir bæjarsjóðs. Í bókun meirihluta sjálfstæðismanna við framlagningu ársreikningsins er árangurinn tíundaður. Skuldahlutfall sem var árið 2002 245% er nú tíu árum seinna komið í 230%. Þeir hafa náð skuldahlutfallinu niður um 1,5% á ári að meðaltali . Enn vantar 80% uppá að viðmiðum sveitarstjórnarlaga verði náð. Miðað við árangurinn hingað til mun það því taka meirihlutann um það bil 53 ár að ná skuldastöðunni niður í þau 150% sem krafist er.
Höldum okkur við efnið
Sú aðferðarfræði meirihluta sjálfstæðismanna að taka bestu bitana út og bera rekstur bæjarins saman við önnur betur rekin bæjarfélög breytir ekki skuldastöðu þeirri sem meirihluti sjálfstæðismanna hefur komið Reykjanesbæ í. Það breytir heldur ekki neinu að kenna öðrum utanaðkomandi um flest það er hér hefur miður farið. Reykbombur þær er meirihluti sjálfstæðismanna sprengir þessa dagana í formi umkenningarleiksins og samanburðarfræðinnar eru til þess fallnar að afvegaleiða umræðuna og afbaka sannleikann. Höldum okkur við efnið. Sem er grafalvarleg niðurstaða ársreiknings Reykjanesbæjar og skipsbrot eignarhaldsfélagsins Fasteignar. Verkefnið er að finna leiðir til að vinna okkur úr þeirri slæmu stöðu sem óvönduð vinnubrögð meirihluta sjálfstæðismanna hafa valdið.
Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson
Varabæjarfulltrúi Samfylkingar í Reykjanesbæ.