Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Höldum okkur við efnið
Föstudagur 26. ágúst 2011 kl. 11:16

Höldum okkur við efnið

Í ljósi umræðu á vefnum og í blöðum um atvinnumál á Suðurnesjum og vegna þess hve umræðan hefur einkennst af skorti á upplýsingum eða afbökunum á staðreyndum frá hendi meirihluta sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ viljum við undirrituð miðla til bæjarbúa í stuttu máli upplýsingum um stöðu nokkurra mikilvægra atvinnuverkefna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Það er kunnara en frá þarf að segja, en samt nauðsynlegt að segja frá því enn einu sinni, að framkvæmdir við álver Norðuráls í Helguvík hafa verið stopp í nokkurn tíma vegna þess að Norðurál og HS-Orka deila um verð á orku til álversins og er sú deila nú fyrir gerðardómi í Svíþjóð. Gerðardómurijnn á að skila niðurstöðu í haust og vonandi verður hún til þess að verkefnið fari af stað á ný.


ESA (Eftirlisstofnun EFTA) er með til umsagnar fjárfestingarsamning sem ríkisstjórnin gerði vegna gagnaversins á Ásbrú en samhliða því vinna ráðuneytin að varaáætlun ef ESA gerir alvarlegar athugasemdir við samninginn. Sem betur fer og þvert ofan í málatilbúnað sjálfstæðismanna berast jákvæðari fréttir af því verkefni. Orkustofnun hefur veitt Verne Holding heimild til að reka aflstöð við gagnaverið og framkvæmdir eru hafnar að nýju, þó í minna mæli en vonir stóðu til í upphafi. Þar sannast hið fornkveðna að góðir hluti gerast hægt.


Hvað hugmyndir um sjúkrahús á Ásbrú og heilsutengda ferðaþjónustu varðar þá hefur komið á daginn að framkvæmdaaðliar drógu sig út úr verkefninu fyrir nokkrum mánuðum. Ekki sökum þess að ráðherrar hafi dregið fæturnar, heldur fyrst og fremst sökum þess að viðskiptavinir fengust ekki frá Evrópu. Viðskiptamódelið virðist einfaldlega hafa verið byggt á væntingum sem ekki stóðust. Sjálfgefið var þá að hætta við en sem betur fer var ríkið ekki búið að kosta hundruðum milljóna í verkefnið eins og til stóð. Heimild velferðaráðherra til útleigu skurðstofu HSS liggur þó fyrir og verið er að leita leigjenda.


Framkvæmdir við byggingu kísilverksmiðju í Helguvík hafa tafist frá fyrri áætlunum sökum þess að fjárfestar gerðu kröfur um ákveðnar breytingar varðandi fjármögnun framleiðslutækjanna. Á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í vikunni kom ennfremur fram að fengist hafði fjármögnun fyrir tækjunum í Noregi en framkvæmdaaðilar ákveðið að leita tilboða víðar. Enn er þó áætlað að verksmiðjan hefji framleiðlsu í lok árs 2013.


Þá má nefna í fjótu bragði önnur verkefni tengd atvinnumálum, stór og smá, sem eru mislangt á veg komin. Verksmiðja Carbon Recycling International mun hefja framleiðslu í Svartsengi í haust. Framundan er endurnýjun á rafmagnskerfum á gamla varnarsvæðinu og vonir standa til þess að samningar takist um nýbyggingu allt að 60 rúma hjúkrunarheimilis í Reykjanesbæ. Einnig er vert að minnast á áætlanir um fiskeldi á Reykjanesi en unnið er að breytingum deiliskipulags svo það verkefnið geti orðið að veruleika. Þá hefur mikil aukningin í ferðaþjónustu og aukin umferð ferðamanna á Suðunesjum í sumar haft mjög jákvæð áhrif.


Ofangreint hefur allt komið fram í bæjarstjórn Reykjanesbæjar á síðustu misserum þar sem fram hefur farið, að öllu jöfnu, yfirveguð og málefnaleg umræða um stöðu bæjarins og atvinnumál á Suðurnesjum. Umkenningarleikurinn í greinarskrifum sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ í vikunni kemur okkur því nokkuð á óvart.


Hafi einhvern tímann verið nauðsynlegt að kjörnir fulltrúar taki hagsmuni almennings fram yfir pólitískar dylgjur í hvors annars garð þá er það núna. Við þurfum á því að halda að þeir sem hér vilja hefja starfsemi skynji að pólitísk samstaða ríki um þá atvinnukosti sem hér geta þrifist.


Vinnum áfram saman að framgangi þeirra fjölmörgu verkefna sem í farvatninu eru – fólkið á Suðurnesjum á það skilið. Höldum okkur við efnið.


Bæjarfulltrúar og varabæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ

Friðjón Einarsson, Guðný Kristjánsdóttir, Eysteinn Eyjólfsson, Jenný Magnúsdóttir, Hjörtur M Guðbjartsson og Hannes Friðriksson