Hoggið á Helguvíkurhnútinn
Fyrir réttum tveimur árum samþykkti Alþingi fjárfestingarsamning við Norðurál út af byggingu álvers í Helguvík. Með honum var formlegum hindrunum fyrir byggingu álversins rutt úr vegi. Gengi saman á milli Norðuráls og orkufyrirtækjanna um orkusölusamninga var leiðin grein. Sérstaklega við HS-Orku sem samkvæmt áformunum myndi framleiða stóran hluta orkunnar.
Bjartsýni ríkti þá um að hratt myndi ganga um að koma framkvæmdum á fullt skrið. Samfélagið suður frá og víðar lagði mikið undir í baráttu fyrir byggingu álvers og væntingarnar voru í samræmi við það. Með brotthvarfi hersins árið 2006 brast undirstaða atvinnulífsins á Suðurnesjum að stórum hluta og allt kapp var lagt á mannaflsfreka orkunýtingu til að bæta skaðann.
Enda mikla orku að finna á Reykjanesinu og sár skortur á atvinnu sem blasir við í hrikalegum tölum um fólk án vinnu á þessu svæði.
Síðan þá hefur þráteflið um orkusölusamninga síflellt undið upp á sig og tafið verkið ár eftir ár atvinnulífinu í landinu til mikils skaða. Svo langt gekk í ágreiningi Norðuráls við nýja eigendur HS Orku um orkuverð að stefnt var í gerðardóm í Svíðþjóð sem á að skera úr um fyrri áform um verð og magn orku. Sveitarfélögin syðra misstu við sölu HS Orku forræði yfir fyrirætlunum félagsins og nýir eigendur tregir til að gangast inn á að skaffa sama magn orku og hinir fyrri.
Málið var komið í hnút og á hann hefur enn ekki verið hoggið. Nú gæti hins vegar verið lag með aðkomu Landsvirkjunar að verkefninu að gera það. Að því tilskyldu auðvitað að HS Orka standi við sitt.
Nú er til umræðu í stjórnkerfinu og innan orkufyrirtækja, samkvæmt frétt Eyjunnar frá í gær, að Landsvirkjun kaupi Hverahlíðarvirkjun og jafnvel Hellisheiðarvirkjun af Orkuveitu Reykjavíkur til að losa um stöðuna og tryggja framgang framkvæmdanna. Þetta gæti augljóslega leyst ýmis vandamál sem tengjast orkuöflun fyrir Helguvíkurálver og hugsanlega fleiri verkefni. Svo sem kísilverksmiðju Thorsil í Þorlákshöfn.
Fjárhagsstaða Orkuveitunnar er mjög þröng og því hefur Hverahlíðarvirkjun á Hellisheiði tafist sökum fjárskorts OR, en fyrirtækið hefur þegar fjárfest fyrir um sjö milljarða króna við undirbúning hennar. Hverahlíðarvirkjun var meðal þeirra sem átti að framleiða orku til álvers í Helguvík og myndi sá samningur fylgja með í kaupunum á Hverahlíðarvirkjun.
Landsvirkjun hefur alla burði til að ganga inn í þessi verkefni og myndi það liðka fyrir orkusölu til álvers í Helguvík og líkast til koma í veg fyrir að þau áform yrðu að engu. Áfram er reiknað með því að HS Orka skaffi stærri hluta orkunnar til álvers í Helguvík. Þess háttar aðkoma Landsvirkjunar að verkefninu, ásamt því að leggja umframorku í kerfi sínu á næstu árum til verkefnisins, gæti skipt sköpum um framhald málsins.
Það er mjög brýnt nú þegar mikið liggur við að koma öflugum framkvæmdum af stað vegna atvinnustigsins og hagvaxtarauka að Landsvirkjun leiti allra leiða til þess að koma að Helguvíkurverkefninu. Það gæti hoggið á Helguvíkurhnútinn og tryggt framgang verkefnisins.
Björgvin G. Sigurðsson, 1. þingmaður Suðurkjördæmis.