Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Höfum vakandi auga í skammdeginu
Mánudagur 3. desember 2007 kl. 12:23

Höfum vakandi auga í skammdeginu

Vegna þeirra hörmulegu atburða sem hafa átt sér stað hér í Reykjanesbæ síðustu daga fór ég að hugsa mig um. Nú eiga margir um sárt að binda vegna lítils drengs sem lést eftir umferðarslys.

Á hverjum degi sest ég upp í bílinn minn og keyri dóttur mína til dagmömmu, á þeirri leið þarf ég að fara framhjá einum leikskóla og einum skóla. Skammdegið gerir það að verkum að mikið myrkur er á morgnana og þarf ég þess vegna að vera mjög varkár þegar ég keyri þessa leið. Ég ek um á mesta umferðartíma morgunsins og allir að fara til vinnu, í skóla eða leikskóla og hef ég tekið eftir því að ekki eru allir nógu vakandi á þessum tíma.

Ég mæti mikið af börnum á öllum aldri, 6 ára að byrja sína skólagöngu og allt upp í 15 ára unglinga sem rölta sér í skólann í kuldanum og myrkrinu. Það sem ég tek þó mest eftir er að lang fæstir bera einhver endurskinsmerki svo auðveldara sé fyrir okkur ökumennina að sjá þau. Mörg barnanna gera sér ekki alveg grein fyrir hættunni frá bílaumferðinni og þess vegna verðum við ökumennirnir að vera fyrirmynd í umferðinni og aka samkvæmt aðstæðum.

Þegar ég var barn man ég ekki betur en að nánast öll börn hafi verið með endurskinsmerki, eitt á bakinu og jafnvel tvö á hliðunum. Okkur voru gefin þessi endurskinsmerki í skólunum. Fyrirtæki og stofnanir gáfu okkur þau á hverju einasta ári og við settum þau á flíkurnar okkar og vorum stolt af því.

Börnin okkar telja sig oft passa sig vel í umferðinni, vegna þess að þau sjá engan bíl. Ég hef brýnt fyrir mínum börnum í gegnum tíðina að þó þau haldi að þau sjái bílana koma, þá sé ekki öruggt að ökumaðurinn sjái þau. Ég mæli eindregið með því að við sem foreldrar athugum nú í hvernig ástandi við sendum börnin okkar í skóla/leikskólann. Eru þau nógu vel merkt? Eru búið að fræða þau nógu vel um hætturnar í umferðinni? Einnig mæli ég með því að fyrirtæki og stofnanir taki sig til að dreifi endurskinsmerkjum til þessa aldurshópa! einsog gert var í "gamla daga" sem er þó ekki svo langt síðan.

Tökum okkur til og berum tillit til hvors annars í umferðinni og þó sérstaklega til barnanna sem ganga í skólann og eru úti á götum bæjarins í þessu myrkri og kulda.

Ein áhyggjufull móðir.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024