Höfum áhrif og tökum þátt
Síðustu daga hef ég verið svo lánsamur að hafa fengið tækifæri til að ferðast um hið víðfema Suðurkjördæmi. Þessi ferðalög hafa að mestu verið í tengslum við framboð mitt í flokksvali Samfylkingarinnar í kjördæminu og ég hef hitt skemmtilegt fólk allt frá Höfn og vestur í Garðinn. Þegar maður fer svona um kjördæmið þá sér maður hversu ólíkar aðstæðurnar eru á milli ólíkra svæða og að það eru misjöfn málefnin sem brenna á fólki eftir því hvar maður kemur. Við sem gefum kost á okkur til starfa fyrir íbúa Suðurkjördæmis á vettvangi stjórnmálanna verðum að leggja okkur fram við að þekkja þau mál sem brenna á fólki á hverjum stað til að geta talað fyrir hagsmunum svæðisins.
Samhljómur á milli svæða
En þrátt fyrir að áherslur fólks séu mismunandi á milli svæða finnur maður fljótt að það er mikill samhljómur í því sem fólk er að segja. Alls staðar talar fólk um mikilvægi atvinnumála enda er heilbrigt atvinnulíf undirstaða alls annars í samfélaginu; alls staðar leggur fólk áherslu á mikilvægi menntunar og aðgang að öflugum menntastofnunum; alls staðar vill fólk njóta góðrar heilbrigðisþjónustu og alls staðar kallar fólk eftir aðgerðum sem taka á skuldastöðu heimilanna. Þegar öllu er á botninn hvolft kemur nefnilega í ljós að það eru sömu málin sem brenna á fólki sama hvar maður kemur. Það vilja allir að Íslandi sé stýrt í anda velferðar og jöfnuðar.
Suðurnesjamenn velja sína talsmenn
Það þarf heilindi og hugrekki til að takast á við verkefni stjórnmálanna í dag. Viðfangsefnin eru krefjandi og snúast um forgangsröðun, áherslur, framtíðarsýn, gildi og lausnir. Þau snúast um að bæta hag lands og þjóðar og leggja grunn að betri framtíð. Ég hef ákveðið að gefa kost á mér til að takast á við þessi mikilvægu verkefni og óska eftir stuðningi í 2.-3. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Ég hlakka til að vinna með frjóu og skemmtilegu fólki úr öllu kjördæminu að framgangi sameiginlegra hagsmunamála okkar allra. Ég vona svo sannarlega að Suðurnesjamenn verði duglegir að taka þátt í flokksvalinu nú um helgina og hafi áhrif á það hverjir veljast til ábyrgðar.
Ólafur Þór Ólafsson
gefur kost á sér í 2.-3. sæti
í flokksvali Samfylkingarinnar í Suðurkjöræmi