Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Miðvikudagur 16. júní 2004 kl. 10:02

Höfuðstöðvar alþjóðlegrar friðargæslu á Keflavíkurflugvelli leysir atvinnuvanda á Suðurnesjum

Eitt af aðal stefnumálum forsetaframboðs míns er að koma á fót höfuðstöðvum alþjóðlegrar friðargæslu í aðstöðu herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli nú þegar bandaríski herinn hverfur af landinu.
Það liggur nokkuð ljóst fyrir að bandaríska herliðið er á förum.  Þrátt fyrir að málið sé þæft eitthvað til að valda ekki of miklu uppnámi í íslensku samfélagi sem hefur í áratugi haft atvinnu og gjaldeyristekjur af hersetunni, er búið að taka þá ákvörðun innan stjórnkerfis bandaríkjanna að loka herstöðinni í Keflavík. 
Við þurfum að bregðast við brotthvarfi hersins með ábyrgum hætti þannig að ekki skapist neyðarástand í atvinnumálum Suðurnesja.  Nauðsynlegt er að leita nýrra leiða í atvinnusköpun til að allur sá fjöldi fólks sem hefur lífsviðurværi sitt á umsvifum tengt hersetunni fái ný störf við sitt hæfi og að ekki hefjist fólksflótti frá Suðurnesjum.
Með því að koma í framkvæmd hugmyndum um að á Keflavíkurflugvelli rísi höfuðstöðvar alþjóðlegrar friðargæslu er ekki aðeins lagt stórt og mikilvægt innlegg til friðarmála í heiminum, með slíkri starfsemi leysum við einnig atvinnumálin á Suðurnesjum til frambúðar.  Starfsemin myndi snaraukast og verða margföld á við umsvif bandarísku herstöðvarinnar undanfarin ár.
Hugmyndin um alþjóðlega friðargæslu á Keflavíkurflugvelli á mikinn stuðning fræðimanna og helstu framámanna friðarmála víða um heim.  Meðal þeirra sem hafa komið hingað til að styðja þessar hugmyndir eru Johan Galtung sem af mörgum er talinn faðir nútíma friðarrannsókna.  Galtung hefur starfað náið með Sameinuðu Þjóðunum á undanförnum áratugum og er höfundur handbókar þeirra um friðarsamninga enda tekið þátt í meira en fjörutíu friðarsamningum fyrir alþjóðasamfélagið.   
Oscar Arias friðarverðlaunahafi Nóbels og fyrrum forseti Costa Rica (hann er aftur nú í framboði eftir nokkurt hlé) er einn þeirra sem hefur lýst yfir afgerandi stuðningi við framboð mitt og hugmyndafræði um forsetaembættið.  Þá hefur Dr. Dietrich Fischer sem var prófessor í varnarmálum við bandarískan háskóla og sem nú er framkvæmdastjóri miðstöðvar European University í friðarrannsóknum einnig lýst því með skýrum dæmum um verk annarra forseta hvernig ég gæti ef kjörinn sem forseti Íslands valdið straumhvörfum í friðarmálum á alþjóðavettvangi.  Dr. Fischer vill að ég leiti eftir samstarfi við aðra þjóðhöfðinga og telur að ég geti fylgt eftir stefnumálum mínum á áhrifaríkan hátt nái ég kosningu.  Hann segir að lítil ríki eins og Ísland séu í mun betri aðstöðu til að beita sér fyrir friði því ekki sé hægt að tortryggja vilja þeirra og segja að þau beiti sér í þágu heimsvaldastefnu öflugri og stærri ríkja.  Ísland sé eitt þeirra ríkja sem sé hafið yfir þá tortryggni.  Einnig sé mikilvægt að Íslendingar hafi aldrei stofnað her og skapar það grundvöllinn til að boða nýjar áherslur í friðarmálum og gera landið að miðstöð friðarmála og heimastöð alþjóðlegrar friðargæslu Sameinuðu Þjóðanna í framtíðinni. 
Ég vona að kjósendur skoði þessa möguleika með opnum huga og geri sér grein fyrir því hvernig hægt er með tiltölulega einföldum áherslubreytingum hjá forseta Íslands að setja Ísland á kortið sem alþjóðlega miðstöð friðar- og mannréttindamála.  Heimurinn kallar eftir aðstoð okkar og í komandi forsetakosningum er mikilvægt að svara þeirri hjálparbeiðni með atkvæði okkar.

Ástþór Magnússon
forsetaframbjóðandi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024