Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hnefinn og og rósin
Föstudagur 16. nóvember 2012 kl. 11:08

Hnefinn og og rósin

Á undanförnum árum hef ég verið óvæginn í gagnrýni minni á ýmis mál er snerta nærsamfélag mitt á Suðurnesjum. Það hefur verið skoðun mín, að opin umræða um mál sem snúast um hagsmuni almennings, væri af hinu góða.  Að  hver og einn geti myndað sér skoðun, og jafnvel lagt sitt af mörkum til lausnar. Gagnrýni mín hefur verið sett fram af góðum hug; varnaðarorð, þegar mér hefur sýnst gengið gegn hagsmunum heildarinnar, en jafnframt bent á aðrar og raunhæfari lausnir. Nægir hér að nefna málefni Hitaveitu Suðurnesja, Eignarhaldsfélagsins Fasteignar, og svo nú síðast málefni Hjúkrunarheimilis að Nesvöllum.

Það fylgir því mikil ábyrgð, að bjóða sig fram til  þingsetu í jafn stóru kjördæmi og Suðurkjördæmi. Eitt helsta einkenni kjördæmisins er litrík flóra atvinnugreina; ólíkar áherslur í atvinnulífi. Hins vegar er lítil áherslubreyting þegar kemur að mikilvægum þjónustuþáttum eins og heilbrigðismálum, samgöngum og löggæslu. En mikilvægust, nú um stundir, eru atvinnumálin, sem hljóta að verða í algjörum forgangi hjá hverjum einasta frambjóðanda, sem vill láta taka sig alvarlega.

Miklar  skuldir íslenskra heimila og fyrirtækja  munu  setja framtíðarhorfum um vöxt einkaneyslu og fjárfestingar miklar skorður, og um leið hefta hagvöxt hér á landi á næstu árum. Það ætti því að vera öllum ljóst að afnám verðtryggingar, sem er meginástæða mikillar skuldsetningar,  er brýnasta hagsmunamál þjóðarinnar allrar. Sú áþján, sem fylgir verðtryggingunni, verður ekki kveðin í kútinn nema með samstöðu þvert á flokka og hagsmunasamtök. Það verður mitt aðal baráttumál.

Fyrir rúmlega þrjátíu árum gerði Vilmundur heitinn Gylfason að umræðuefni merki jafnaðarmanna, hnefann og rósina. Hann sagði: “Merki okkar jafnaðarmanna er hnefi og rós. Hnefinn táknar afl, rósin fegurð. Kannski finnst ykkur að hnefinn skipi of mikið rúm í málflutningi okkar, að rósin, fegurðin, komist ekki að sem skyldi. Mér finnst þetta stundum sjálfum. En við erum þjóð í vanda, við hverfum ekki frá efnahagslegri óstjórn, siðferðilegri upplausn, við komum ekki umbótum okkar í gegn nema að við setjum hnefann í borðið. Hnefinn og rósin eru hvort öðru háð. Við trúum því að aukist afl okkar þá verði meira rúm fyrir rósina, meira rúm fyrir fegurðina í íslensku þjóðfélagi”.

Það er mín skoðun, að það sé komið að tíma rósarinnar; rósar allra heimila í landinu. Það þarf að skapa þeim skilyrði til að njóta fegurðar eftir erfiðleika síðustu ára. Það er fyrir því sem ég vil berjast, þess vegna hef ég boðið mig fram og bið um stuðning í 3. sæti í flokksvali Samfylkingar í Suðurkjördæmi.

Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024