Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Miðvikudagur 14. maí 2003 kl. 10:38

HMY flugfélagið – opnaði augu fyrir mikilvægum markaði

Þann 16. desember millilenti fyrsta flugvél HMY á Keflavíkurflugvelli og þegar í febrúar fóru fyrstu Íslensku farþegarnir með félaginu til Kanada. Til að byrja með var um að ræða eitt flug á viku en fjölga átti ferðum í 5-7 á viku þegar líða tæki á sumarið. En í kjölfar stríðsumræðu var ákvörðun tekin um niðurfellingu flugleiðarinnar og olli það ferðamönnum og aðilum í ferðaþjónustu miklum vonbrigðum. Áhugi aðila í ferðaþjónustu og ferðamanna á flugleiðinni milli Íslands og Kanada hefur þó án efa opnað augu ráðamanna fyrir mikilvægi flugleiðarinnar og því er nauðsynlegt að leita ráða til að tryggja viðkomandi flugleið til framtíðar.HMY gerðu betur en þeim bar
Eftir að ákvörðun eiganda HMY lá fyrir um að hætta flugi til Íslands vegna aðstæðna í heimsmálum var þegar hafist handa við að leysa vanda einstakra flugfarþega og gekk sú vinna vonum framar. Allir farþegar sem þegar voru erlendis og áttu heimferð eftir 10. mars var útveguð ný leið heim og þeir farþegar sem ekki áttu bókað flug fyrr en eftir 10. mars var endurgreiddur flugmiðinn með kreditfærslu á gjaldfært kreditkort. Þá tók HMY flugfélagið þá einstöku ákvörðun að leyfa öllum þeim sem ekki höfðu hafið ferð og áttu bókað flug fram að 10. mars að halda sig við áætlun og tryggðu þeim heimferð með öðrum flugfélögum. Þessi ákvörðun gengur lengra en almennar skyldur flugfélaga gera ráð fyrir. Farþegar fengu því í það minnsta mánaðar fyrirvara á breytingu eða ferðuðust án aukakostnaðar sem í mörgum tilfellum var margfaldur miðað við upphaflega greitt gjald.
Allir reikningar vegna þjónustu og lendingargjalda voru greiddir strax sem sýnir að flugfélagið leggur áherslu á að skilja við Ísland á sem bestan hátt og eiga þannig afturkvæmt þegar og ef aðstæður leyfa.

Mikilvægt að opna Kanada markaðinn aftur
Á þeim örfáu vikum sem flug HMY stóð yfir kom í ljós sú mikla þörf sem er á flugi milli Íslands og Kanada en frá byrjun var áhersla lögð á að millilendingar kanadíska flugfélagsins leiddu til aukinna viðskipta hér á landi. Sérstaklega má nefna Keflavíkurflugvöll og flugstöðina en þar hefur samdráttar gætt síðastliðna mánuði og því þótti Kanadaflugið kærkomin búbót fyrir þau fyrirtæki sem þar vinna. Ferðamenn frá Vestur Kanada er einnig nýr og áhugaverður kostur fyrir ferðaþjónustufyrirtæki hér á landi. Fjölmargar fyrirspurnir og bókanir Íslendinga með HMY sýndu sömuleiðis fram á mikinn áhuga á flugleiðinni milli Íslands og Kanada.

Hverju breytti stríðið í Írak?
Ákvörðun eiganda HMY flugfélagsins byggðist eingöngu á þeirri staðreynd að stríð við Írak var í nánd. Margir voru tilbúnir að lýsa undrun á þeirri ákvörðun. Svo virðist sem stríð í Írak muni hafa nokkuð víðtækari áhrif á rekstur bandarískra flugfélaga en áður var talið ef marka má nýlegar greinar sem birst hafa í íslenskum fjölmiðlum og á vefmiðlum The Wall Street Journal og The Economist. Þannig hafa bandarísk flugfélög tilkynnt um 20 – 40% samdrátt í bókunum upp á síðkastið s.s. hjá United Airlines. Er nú jafnvel búist við að rekstrartap í greininni geti numið allt að 10 milljörðum Bandaríkjadala á yfirstandandi ári.

Þannig fór Hawaiian Airlines fram á greiðslustöðvun í april. Northwest tilkynnti að félagið myndi draga úr áætlunarflugi um 12% og fækka stöðugildum um 11%. United Airlines hefur tilkynnt 8% samdrátt í sætaframboði frá og með 1. apríl til viðbótar við 6% samdrátt fyrr á þessu ári. American Airlines berst í bökkum til að forðast gjaldþrotameðferð á meðan önnur félög leita leiða til að draga úr umsvifum og auka framlegð. Er skemmst að minnast umfangsmikilla aðgerða SAS flugfélagsins sem á í miklum fjárhagsvanda um þessar mundir.

Lokaorð
Þrátt fyrir ákvörðun HMY um að hætta flugi yfir Atlantshafið í bili er ljóst að aðilar í ferðaþjónustu, almenningur og ráðamenn hafa komið auga á mikil sóknarfæri sem liggja í flugleiðinni milli Íslands og Kanada. Má til gamans geta þess að eftir að frumkvæði okkar með flugleið kanadískra flugfélaga til Íslands hófst jukust komur kanadískra ferðamanna til Íslands yfir 3000%. Umsókn undirritaðs um auglýstan styrk, króna á móti krónu, var þó í s.l. mánuði hafnað af Ferðamálaráði Íslands. Markaðsstyrkur í þeirra augum á greinilega ekki við um markaðssókn eða frumkvæði – þeirra styrkur berst þegar allir endar eru bundnir.

Steinþór Jónsson, hótelstjóri og umboðsmaður HMY á Ísland
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024