Hlutverk foreldra
Reglur og markmið eru mikilvæg til að vernda börnin okkar. Til dæmis er sú regla afar mikilvæg að líta ávallt til hægri og vinstri áður en gengið er yfir götu. Það er bæði skylda og ábyrgð hinna fullorðnu að undirbúa ungviðið sem best undir fullorðinsárin hvort sem litið er til heilsu, næringar eða framtíðar almennt.
Slíkt hlutverk yrði að vonum auðveldara ef hinir fullorðnu myndu hlusta vel á börnin til að skilja betur bæði þarfir þeirra og tilfinningar. Það hefur góð áhrif á þroska en einnig á aðra þætti eins og nám og skólagöngu og leiðir þau í átt að fullkomnu sjálfstæði eftir að þau fljúga úr hreiðrinu. Hér er samt nauðsynlegt að foreldrar, kennarar og aðrir sem við treystum fyrir börnunum okkar séu víðsýnir og hafi hag ungviðisins og traust foreldra ávallt að leiðarljósi í störfum sínum. Þannig má ná árangri. Foreldrar þurfa að sýna börnum sínum aga og kenna þeim muninn á réttu og röngu. Ekki má banna allt! Þau litlu þurfa að fá tækifæri til að prófa sig áfram og spreyta sig. Lífleg börn þarfnast fleiri takmarkana og markmiða en alls ekki alltaf lyfja. Og mörk þurfa að vera bæði sjáanleg og skiljanleg. Framtíð barnanna er í okkar eigin höndum því við myndum grunninn undir líf þeirra. Börn lifa með fjölskyldu sinni en ekki gegn henni. Áhrif fjölskyldunnar á barnið eru mikil. Ef ég er hamingjusöm og heilsuhraust manneskja get ég vissulega verið góð fyrirmynd. Og margt í lífinu er auðveldara ef foreldrar vinna saman en ekki hvort gegn öðru. Faðirinn er, líkt og móðirin, með hlutverk sem á að efla lífsgleði og þroska barnanna svo þau geti notið sín sem börn. Foreldrar sem taka þá ákvörðun að skilja þurfa að útskýra það fyrir börnum sínum á auðskilinn hátt af hverju svo sé komið, hvað komi til með að breytast og hvað ekki. Skylda foreldra er að gera allt sem mögulegt er til að auðvelda skilnað fyrir börnin og einnig að tryggja samveru fjölskyldunnar þrátt fyrir skilnað. Í raun getur ást sem einu sinni var, breyst í vináttu tveggja einstaklinga. Foreldrar ættu að vera tilbúnir að mætast af virðingu og forðast að nota börnin til að hefna sín á fyrrverandi maka eins og mörg dæmi eru um. Vinátta er vissulega möguleg í stormasömustu samböndum. Áfengi og misnotkun lyfja eru ekki lausnir. Börn sjá foreldra sína sem fyrirmyndir og þeir ættu að haga sér í samræmi við það. Dagurinn í gær er liðinn. Öll mistökin sem við gerðum í gær eru óbreytt en við getum lært af þeim og bætt okkur. Þetta er lærdóms- og þroskaferli sem við endurlifum dag eftir dag. Allt sem á sér stað hér og nú er lífið. Morgundaginnætti ekki að skipuleggja í smáatriðum þótt gott sé að vita hverjar væntingar manns til lífsins séu hverju sinni.
Birgitta Jónsdóttir Klasen