Hlutafélagið skilar tvöföldu virði á fjórum árum
Í síðustu viku var kynnt nýtt mat á virði Hitaveitu Suðurnesja. Verðmæti hlutafjár er metið á um 18-20 milljarða króna. Þetta er tvöföldun frá því HS var breytt í hlutafélag fyrir aðeins fjórum árum síðan. Reykjanesbær á tæp 40% í HS. Þetta þýðir að á hverjum degi í fjögur ár hefur eign Reykjanesbæjar í HS aukist um 2,4 milljónir kr. Eign bæjarins í HS er um 7,2-8 milljarðar króna en við bókfærum það hinsvegar mun lægra eða á 5,1 milljarð kr.
Þessi gríðarlega eignaaukning HS hefði ekki orðið ef Samfylkingin í Reykjanesbæ hefði náð fram ósk sinni um að fella tillögu um HS sem hlutafélag. Þá hefðu Hafnarfjörður, Árborg og Vestmannaeyjar ekki komið inn sem nýir hluthafar. Sú vinna okkar að ná fram breytingum á HS í hlutafélag og áhersla á að Reykjanesbær eigi sterkan hlut í HS hefur skilað samfélagi okkar gríðarlegum ábata umfram sterka eignastöðu. Öll sveitarfélögin á Suðurnesjum njóta nú góðs af því.
Sterk staða okkar í Hitaveitunni hefur einnig styrkt stöðu Helguvíkur og möguleika á stóriðnaði á svæðinu. Samkomulag HS, Norðuráls og Reykjanesbæjar um athugun á byggingu álvers í Helguvík, er viðurkenning fyrir okkur sem barist höfum fyrir atvinnumálum á svæðinu og mikilvægi þess að eiga sterk ítök í HS. Það virðist ekki líklegt að eftir uppákomur hjá Vinstri grænum og Framsóknarmönnum að þessir aðilar hafi ofarlega á stefnu sinni að hér rísi stóriðja á Suðurnesjum. Þeim virðist vera meira í mun að gera lítið úr Reykjanesbæ.
Við þurfum að vinna hratt og örugglega til að ná samningum í gegn. Ég treysti engum betur til þess en Árna Sigfússyni bæjarstjóra og Júlíusi Jónssyni forstjóra HS.
Þorsteinn Erlingsson
skipstjóri og form. atvinnu og hafnaráðs
Bakgrunnsmynd af HS/Oddgeir Karlsson