Hlöðum í framboð, það er lýðræði

Þegar ég var yngri og tók virkan þátt í umræðu um það sem var að gerast í okkar þjóðfélagi þá mætti ég oft ákveðnu viðmóti, viðmóti sem hafði sem betur fer öfug áhrif á mig: “Hvað heldur þú að þú getir gert? Þú getur ekki breytt þessu! Þetta er ekki hægt, þetta hefur verið reynt margoft!”

Svona orðræða er sú orðræða sem hefur hvað mest hvatningar áhrif á mig í lífinu. Ég hef gert hvað mest í því að brjóta upp ranghugmyndir sem hafa fylgt setningum af þessu tagi: "Sjómenn geta aldrei staðið saman!" ég komst að því þegar á reyndi að svo var ekki. Sjómenn gátu alveg staðið saman. "Þetta kísilver verður aldrei stoppað!" Jú svo sannarlega, það er stopp nú og ég ætla mér að tryggja að svo verði áfram. Bæði þessi málefni eiga eitt sameiginlegt: Fólkið sem tók þátt vaknaði til vitundar um það að samtakamáttur okkar getur allt. Því saman þá erum við sterk og virk þátttaka í hverskonar samtökum og lýðræði er það sem drífur okkur áfram. Sameiginleg markmið um betri kjör, betra starfs umhverfi og betra samfélag eru það sem brennur á öllum. Að hafa þak yfir höfuðið, að geta haft tíma með fjölskyldunni og farið í frí og notið lífsins því við eigum að fá að njóta þess á meðan heilsan leyfir. Samfélagið okkar í dag er rekið á ógnarhraða. Þensla og þrýstingur á aukna framleiðni og meiri peninga er gríðarlegur en lífsgæðin sem fylgja því safnast því miður í síauknum mæli á færri hendur. Hverjir bera ábyrgð á því? Og hvernig getum við lagað það?

Með því að gera meira en bara  að kjósa á fjögurra ára fresti eða treysta á að einhver annar geri hlutina fyrir okkur. Við erum breytingin og til þess að hlutirnir breytist þá þurfum við að taka virkan þátt en til þess að geta tekið virkan þátt þá þarf aðgangur að þátttöku að vera auðveldur og skilvirkur. Upplýsingar sem eru nauðsynlegar til þess að fólk geti tekið afstöðu í tilteknum málum þurfa að vera  vel aðgengilegar, án þeirra er mjög erfitt að breyta neinu.

Það er grundvallaratriði í öllum lýðræðislegum hreyfingum að félagsmenn fái að ráða för. Þetta gildir líka um verkalýðshreyfingar landsins og einmitt ekki síður því þetta eru þær hreyfingar sem eiga að bera hagsmuni launafólks fyrir brjósti og efla þá valdaminni gagnvart þeim valdameiri.   Það er einmitt eitt af grundvallaratriðum í hugsjónum Pírata og ein af stóru ástæðunum fyrir að ég er Pírati.

Þess vegna er það til hagsbóta fyrir alla að sitjandi stjórn VS, sérstaklega af því að hún hefur setið lengi án mótframboðs, endurnýi umboð sitt eða hleypi að nýju blóði ef félagsmönnum finnst kominn tími á slíkt. Það er því einfaldalega ekki hægt annað en að hvetja alla þá sem vilja hafa áhrif á gang mála að “hlaða í framboð”, þannig virkar lýðræðið.

Þórólfur Júlían Dagsson
Pírati, félagi í VS, starfsmaður hjá IGS