Hljómahöllin stóð undir nafni
Langar til að þakka þeim sem stóðu að stórskemmtilegum tónleikum sem fram fóru í Hljómahöllinni þriðjudagskvöldið sl. Þar komu fram hinn vestur íslenski Lindy Vopnfjörð, Ylja og Snorri Helgason.
Lindy hóf tónleikanna. Ég verð að viðurkenna að ég þekkti ekkert til kappans og kom hann mér skemmtilega á óvart. Flottur tónlistarmaður með góða rödd og fínar lagasmíðar, einlægur og trúr í sínum flutningi.
Ylja var næst á sviðið. Sá þær fyrst hita upp fyrir Glen Hansard (The Swell Season) fyrir nokkrum árum þá ungar og óreyndar. Þær hafa heldur betur vaxið og blómstrað síðustu misseri. Stelpurnar hafa báðar flottar raddir og mikla útgeislun á sviði.
Snorri Helgason og hljómsveit luku svo tónleikunum með glæsibrag. Sprengjuhallar prinsinn hlýtur að vera á barmi heimsfrægðar, annað er bara svindl. Snorri hefur allt til að bera til þess að skapa sér sess í risavöxnum heimi popptónlistar.
Hljómurinn í salnum var frábær og hin stórkostlega Hljómahöll stóð svo sannarlega undir nafni. Reykjanesbær hefur stökkbreyst á undaförnum árum. Við erum alvöru menningarbær, eigum söfn og tónlistarhús á heimsmælikvarða.
Það eina sem skyggði á þessa flottu tónleika voru hversu fáir sáu sér fært að mæta. Það er lágmarks kurteisi að mæta í veislu þegar vel er boðið. Það má hvíla Facebook, Twitter og hin tölvu forritin sem virðast ráða mestu um það, hvað verður um frítíma nútímafólks.
Takk fyrir mig,
Tómas Tómasson.