Hljómahöllin - höll tækifæra
Í lok janúar nk. mun fyrri áfangi Hljómahallarinnar í Reykjanesbæ verða tekinn í notkun. Það er Stapinn, ásamt þeirri stækkun sem orðin er á honum, lóðin og ytra útlit hússins. Stapinn mun áfram þjóna hlutverki félagsheimilis bæjarfélagsins eins og hann hefur gert alla tíð, en jafnframt verður hann sérlega góður tónleikasalur fyrir stærri tónlistarviðburði sem og rúmgóður og hentugur ráðstefnusalur. Síðari áfangi Hljómahallarinnar verður svo tekinn í notkun eins fljótt og unnt er eftir opnun fyrri áfanga. Í þeim áfanga er húsnæði Tónlistarskólans, minni tónleika- og ráðstefnusalur, athyglisverð poppsýning og Hljómakaffi, sem verður bjart og fallegt veitinga- og kaffihús inn af sal Stapans.
Ráðist var í þetta metnaðarfulla verkefni, Hljómahöllina, af fimm ástæðum. Sú sem var mest aðkallandi og sem í raun ýtti þessu verkefni úr vör, var þörfin fyrir að koma Tónlistarskóla Reykjanesbæjar í rúmgott framtíðarhúsnæði sem hentaði hinni sérhæfðu og fjölbreyttu starfsemi skólans. Tónlistarskólakennsla hefur verið við lýði í sveitarfélaginu okkar síðan 1957, eða í 52 ár og hefur aldrei, allan þann tíma, haft húsnæði til umráða sem hæfði starfseminni. Poppminjasafn Íslands er búið að vera á hrakhólum frá fyrstu tíð, en því merka safni og þeirri sögu sem það segir, þarf að gera viðeigandi skil. Nauðsynlegt var orðið að ráðast í viðamiklar endurbætur á Félagsheimilinu Stapa. Mikil þörf var orðin fyrir góða, stærri tónleikasali í bæjarfélaginu og að síðustu, mikil þörf fyrir góða ráðstefnusali, sérstaklega í stærri kantinum. Í stað þess að hafa þessi aðkallandi verkefni aðskilin, var ákveðið að sameina þau undir einu þaki með það að markmiði að þau myndu styrkja hvert annað og starfa saman sem ein heild á sviði tónlistar og ráðstefnuhalds.
Það húsnæði sem Tónlistarskóli Reykjanesbæjar mun flytja í í Hljómahöllinni, mun skapa byltingu fyrir starfsemi skólans og gera honum kleift að nýta þau tækifæri sem eru víða í menningarmenntun okkar Íslendinga. Þessi aðstaða ásamt þeim tónleikasölum sem verða í Hljómahöllinni - Tónlistarskólanum, mun valda straumhvörfum í aðstöðu tónlistarmenningar á Íslandi. Góð aðstaða verður í Hljómahöllinni til upptöku úr báðum sölum hússins en í því sambandi mun vel búið Tónver Tónlistarskólans gegna lykilhlutverki. Auk þess verða ljósleiðaratengingar á nokkrum stöðum. Það er gaman að geta þess að Ríkisútvarpið hefur sýnt áhuga á því að nýta sér Hljómahöllina til útsendinga á stórum viðburðum.
Síðan ætti að vera sérlega áhugavert fyrir ráðstefnuaðila að horfa til Hljómahallarinnar, þar sem hönnun hússins miðar að því að salirnir og hluti Tónlistarskólans nýtist til ráðstefnuhalds. Öflugt veislueldhús Stapans og kaffihúsið Hljómakaffi munu renna stoðum undir það að aðilar komi með ráðstefnur í Hljómahöllina.
Hér hef ég rakið í stórum dráttum þá húsnæðislegu aðstöðu sem skapast með tilkomu Hljómahallarinnar. En Hljómahöllin verður annað og meira en bara hús og aðstaða. Hljómahöllin verður stórt og metnaðarfullt tónlistarverkefni sem mun teygja anga sína um allt svið tónlistarinnar, m.a. með samstarfi við hina ýmsu aðila og stofnanir innan tónlistargeirans hérlendis sem og erlendis. Hljómahöllin og Tónlistarskóli Reykjanesbæjar verður vettvangur þar sem tónlistarmenn í Reykjanesbæ og víðar geta sameinast í framkvæmd metnaðarfullra tónlistarviðburða. Tónlistarnemendur í Reykjanesbæ munu geta stundað nám sitt og kennarar skólans starf sitt, við bestu hugsanlegar aðstæður.
Njótendum tónlistar, sjálfum hlustendunum, verður gert hátt undir höfði í Hljómahöllinni, en eins og áður segir verða þar tveir mjög góðir tónleikasalir. Áhugafólk um tónlist mun því geta notið lifandi tónlistarflutnings af öllu tagi við afar góðar aðstæður. Áhugafólk um popp- og rokktónlist geta notið lífins í Hljómahöllinni við skoðun og upplifun á einstakri poppsýningu, þar sem gestir fá að upplifa popp- og rokktónlistina í áhugaverðri tengingu við rokksöguna. Poppsýningin verður því afar aðgengileg fyrir íbúa Reykjanesbæjar um leið og hún verður hluti af ferðamannadagskrá Reykjaness. Með þessu er verið að sýna sögu rokksins og Poppminjasafni Íslands tilhlýðilega virðingu.
Það er hverju samfélagi afar mikilvægt að skapa þá umgjörð um menningu þess sem hæfir, og með tilkomu Hljómahallarinnar er verið að renna styrkari stoðum undir starfsvettvang tónlistarmanna eins og kennara, flytjenda og tónskálda. Með því er verið að styrkja og efla tónlist sem atvinnugrein í Reykjanesbæ og um leið tónlistarmenntunina. Hljómahöllin - Tónlistarskóli Reykjanesbæjar mun því verða einn af máttarstólpum Reykjanesbæjar í menningartengdri atvinnustarfsemi.
Það er trú mín að í Hljómahöllinni skapist iðandi mannlíf, samofið fallegu og áhugaverðu tónlistarumhverfi, öllu samfélaginu hér til hagsbóta og menningarauka.
Haraldur Árni Haraldsson
skólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og verkefnisstjóri Hljómahallar f.h. Reykjanesbæjar