Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hlífum náttúruperlum okkar
Fimmtudagur 25. janúar 2007 kl. 13:33

Hlífum náttúruperlum okkar

Undarleg er sú árátta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar að vilja setja risastórt og mengandi álver við dyr millilandaflugvallar okkar. Getur þeim ekki dottið neitt betra í hug?

Þó það skapist nokkur hundruð störf þá kemur þetta álver til með að hindra myndun mun fleiri starfa en það skapar – nýrra starfa sem höfða meira til uppvaxandi kynslóða. Ég á við störf sem byggja meira á hugviti en orkusóun og krefjast það lítils fjármagns að eignarhald þeirra verður að miklu leyti í héraði. Arðvænlegri og meira spennandi störfum verður rutt til hliðar. Það er bara rugl.

Verst af öllu er þó allt það rask og náttúrueyðilegging sem verður um allan Reykjanesskagann og fellir hann í verði sem náttúrudjásn hér við bæjardyr þorra Íslendinga og við dyrnar inn í landið. Þar á ég við jarðvarmavirkjanir með til heyrandi byggingum, vegarslóðum, borplönum, risarörum og ekki síst risavöxnum háspennulínum sem skera í augu.
Til stendur að leggja að minnsta kosti tvær 30 metra háar háspennulínur að álverinu og stórskemma með þeim dýrlegt útsýni um skagann þveran og endilangan. Vogar, Grindavík og Sandgerði munu fá að súpa seyðið af því ef af verður.

Það vill gleymast að ferðaþjónustan er aðal vaxtarbroddur atvinnulífs á Íslandi auk þekkingariðnaðar. Í þessum greinum skapast miklu fleiri störf en í áliðnaði og þær eru í sátt við landið og hagkerfið.
Margir Vogabúar horfa til slíkra atvinnugreina fyrir sig og börnin sín og geðjast alls ekki að því að fá tröllslegar háspennulínur yfir fegurstu hluta landsins okkar. Við viljum eiga náttúruperlur okkar í friði fyrir okkur, afkomendur okkar og gesti.

Ég vona að nógu margir átti sig á því í tíma að hér er vá fyrir dyrum og stoppi þessa vitleysu áður en það er of seint.

Þorvaldur Örn Árnason
vinstri grænn, í Vogum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024