Hlátur, grátur og slátur
Á haustmánuðum 2007, þegar allt stóð hér í þvílíkum blóma að við höfðum aldrei upplifað annað eins, þá steig ég uppí pontu á Alþingi og hvatti til aukinnar sláturneyslu. Það voru viðbrögð mín við því að slátur virtist vera að hverfa úr verslunum og það fannst mér miður, burtséð frá því hver staða heimilanna var á þeim tímapunkti.
Nú er ekki svo að sláturtaka sé það eina sem hefur komist að hjá mér í minni þingvinnu. Því fer fjarri. En þetta þótti samferðamönnum mínum, andstæðingum sérstaklega, alveg fádæma hallærislegt. Að ég skildi vera að minnast á þessa fornaldarmatarvenju á miðjum góðæristímum.
SLÁTRINU SLÁTRAÐ
Þetta hefur síðan oft verið notað á mig í góðlátlegu gríni. "Já Kjartan, það þýðir ekkert að tala við hann, hann er bara að taka slátur", sögðu menn. Það er svo sem ágætt að ekki finnst neitt verra á mig.
En það er nú bara þannig að allt sem fer upp kemur niður og nú þegar efnahagshörmungarnar ganga yfir okkur þá gerist það illu heilli að öll þjóðin stormar í verslanir og tekur slátur. Hvað annað ? herramanns heimilismatur eins og soðin ýsa sem stór partur þjóðarinnar virðist vera að átta sig á alveg uppá nýtt.
NOTUM ÞAÐ SEM GUÐ GAF
En á meðan grínararnir voru að hlæja af slátrinu, var ég á fullu að hafa samband við mitt fólk í sveitum og bæjum Suðulands um að ná samstöðu um að virkja til góðra verka, skapa atvinnutækifæri og standa vörð um sjúkrastofnanirnar okkar. Líklega voru andstæðingarnir mínir inní Húsasmiðju að kaupa frystikistur fyrir slátrið sitt á sama tíma. Ég var löngu búinn að kaupa frystikistu.
Þá er rétt að spyrja hvort ég hafi verið svona eftir á og gamaldags - eða bara svona langt á undan
FRELSI FYLGIR ÁBYRGÐ
Þjóðin á að nota auðlindir sínar; landbúnaðarafurðir, sjávarafurðir, fallvötn, gufu og hvað það sem mögulega getur aukið lífsgæði. Slátur er þar engin undatekning og mér þykir miður að andstæðingar mínir hafi verið svona seinir til að átta sig á því. Í þeirri umræðu sem fer fram í dag er ljóst að það eru ekki síður andstæðingar okkar sem hafa misst sjónar á því gildismati sem þeir tala þó svo fjálglega um.
Þegar Sjálfstæðisflokkurinn talar og skrifar um frelsi einstaklingsins til athafna og viðskipta þá setndur þar líka að frelsi fylgi ÁBYRGÐ.
Kjartan Ólafsson,
þingmaður og frambjóðandi