Aðsent

  • Hjúkrunarrýmum þarf að fjölga
    Hjúkrunarrými á Nesvöllum í Reykjanesbæ.
  • Hjúkrunarrýmum þarf að fjölga
Föstudagur 23. janúar 2015 kl. 09:00

Hjúkrunarrýmum þarf að fjölga

Sigurður Grétar Sigurðsson, sóknarprestur Útskálaprestakalli skrifar.

Þótt innan við ár sé síðan nýtt hjúkrunarheimili var tekið í notkun í Reykjanesbæ eru yfir 50 manns á biðlista eftir plássi samkvæmt mínum upplýsingum. Eftir því sem ég best veit fær enginn að fara á biðlista nema vistunarmat gefi tilefni til þess. Einnig er rétt að hafa í huga að á unanförnum árum hefur þröskuldurinn til að komast inn á hjúkrunarheimili hækkað sem þýðir að fólk þarf að vera heilsuveilla en áður til að komast inn. Biðlistinn hefur lengst.  Það er samfélagslegur ábygðarhluti að slaka á í þessum efnum því það getur komið illilega í bakið á okkur síðar.
 
Tökum dæmi um hjón þar sem annar aðilinn er í brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými en þraukar heima vegna þess að frískari maki sinnir flestum þörfum auk þeirrar heimaþjónustu sem í boði er. Það er raunveruleg hætta á því að hinn frískari missi heilsuna mun fyrr en ella þyrfti sem þýðir að biðlistinn lengist enn frekar og hraðar en annars væri.
 
Öldungaráð hefur nýlega tekið til starfa á Suðurnesjum. Það er málefnalegur hópur fullur af reynslu og þekkingu á málefnum aldraðra og sveitafélögum til ráðgjafar. Ég skora á sveitafélögin að gefa þessum málaflokki enn frekari gaum og taka mark á sjónarmiðum þeirra sem best þekkja til í málaflokknum. Það er tilvalið á fyrri hluta þessa árs að boða til opins fundar um hjúkunarheimilisþjónustu á Suðurnesjum, leggja mat á hvað hefur áunnist, leggja mat á hina nýju stefnu sem tekin hefur verið, leggja mat á hver þörfin er og leita leiða til að sjá til lands þannig að unnt verði að útrýma biðlistum.  
 
Aldraðir eru hvorki hávær þrýstihópur né frekur. Aldraðir fara ekki í verkfall. En við hin yngri eigum að vera þrýstihópur fyrir þeirra hönd.  Kjörnir fulltrúar eiga að ganga hreint til verks og þeir hljóta að sjá að málið þolir enga bið.  Þetta mál kemur öllum til góða, fyrr eða síðar því flest náum við því að verða öldruð.
 
Sigurður Grétar Sigurðsson,
sóknarprestur Útskálaprestakalli
 
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024