Hjúkrunarráð lýsir furðu sinni
Hjúkrunarráð HSS ályktaði um gerð skýrslu um endurskipulagningu sjúkrahúsþjónustu á suðvestur horninu og einng um niðurskurð.
Hjúkrunarráð Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS) fundur haldinn 25. janúar 2010 sendi frá sér eftirfarandi ályktanir:
Ályktun I
Hjúkrunarráð HSS lýsir yfir furðu sinni á þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið við gerð skýrslu um endurskipulagningu sjúkrahúsþjónustu á suðvesturhorninu sem heilbrigðisráðuneytið lét gera. Hlutdrægni er augljós við lestur skýrslunnar þar sem skýrsluhöfundar eru eingöngu starfsfólk heilbrigðisráðuneytisins og LSH. Átelur hjúkrunarráðið vinnubrögð heilbrigðisráðuneytisins.
Ályktun II
Hjúkrunarráð HSS lýsir yfir áhyggjum sínum með þann niðurskurð sem framundan er á stofnuninni. Eins og margoft hefur komið fram fær stofnunin mun minna fé úthlutað til reksturs á hvern íbúa en sambærilegar heilbrigðisstofnanir á landinu. Framkvæmdastjórn HSS er gert að skera niður útgjöld á þessu ári um 86,5 milljónir króna. Þjónusta við íbúa svæðisins hefur verið í lámarki undanfarin ár hvað heilsugæsluna varðar og á þessum tímapunkti komin á hættustig og álag á starfsfólk mikið. Þrátt fyrir að starfsfólk stofnunarinnar hafi náð að anna stórum hluta skjólstæðinga fyrir minna fé en aðrar stofnanir. Fyrirhugaður niðurskurður er lokun sykursýkimóttöku, lokun skurðdeildar sem veldur skerðingu á starfsemi fæðingardeildar, skerðing eða lokun á sál- og félagslegu þjónustunni og lengri tímabundnar lokanir á líknar- og endurhæfingardeild.
Stjórn hjúkrunarráðs HSS telur brýnt að koma því til skila að með áðurnefndum aðgerðum er þjónusta við sjúklinga verulega skert, öryggi þeirra ógnað og þjónustu við íbúa svæðisins stefnt í hættu.
Guðbjörg Sigurðardóttir formaður
Steina Þórey Ragnarsdóttir
Bryndís Sævarsdóttir