Hjúkrunarfræðingar mótmæla niðurskurði á HSS
Stjórn Suðurnesjadeildar innan F.Í.H. [Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga] mótmælir harðlega þeim mikla niðurskurði sem Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er skylt að framkvæma. Stjórnin telur að fulltrúar frá Heilbrigðisráðuneytinu hafi ekki hugsað afleiðingar þessa niðurskurðar til enda.
Stofnuninni er gert að skera niður um 400 milljónir sem þýðir að fæðingardeild, hand- og lyflækningadeild, endurhæfingadeild og öldrunardeild munu leggjast af í þeirri mynd sem nú er. Þjónusta við krabbameinssjúklinga, hjartasjúklinga og lungnasjúklinga mun öll flytjast til Reykjvíkur. Ennfremur mun þjónusta við aldraða skerðast verulega. Þetta mun leiða til þess að íbúar á svæðinu þurfa að leita til Reykjavíkur eftir þjónustu sem hingað til hefur verið í heimabyggð. Þetta mun koma harðast niður á þeim sem minnst mega sín eins og barnafjölskyldum og öldruðum, með tilheyrandi kostnaði og óþægindum. Fólk sem þarf á innlögn á sjúkrahús að halda mun þá liggja á Landspítala Háskólasjúkrahúsi í stað þess að vera í heimabyggð nálægt ættingjum.
Stjórn Suðurnesjadeildar innan F.Í.H. skorar á þingmenn og heilbrigðisráðherra að endurskoða þessa ákvörðun.
Stjórn Suðurnesjadeildar
Íris Dröfn Björnsdóttir
Guðbjörg Sigurðardóttir
Eyrún Ingólfsdóttir