Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Hjúkrunar- og öldrunarmál á tímamótum
Frá Garðvangi. Mynd úr safni.
Laugardagur 14. september 2013 kl. 11:30

Hjúkrunar- og öldrunarmál á tímamótum

Allir vilja verða gamlir, en enginn vill vera það.  Getur verið að þessi staðhæfing standist á því herrans ári  2013. Svo undarlegt sem það er þá kvíða margir eldri borgarar því þegar þeir geta ekki séð um sig sjálfir, vilja ekki fara inn á heimili barna sinna, en vilja síður vera síðasta æviskeiðið á sjúkrastofnun.

Á Suðurnesjum hafa sveitarfélögin Reykjanesbær, Sandgerði, Garður og Vogar rekið hjúkrunarheimilin Garðvang og Hlévang.  Í Grindavík er Hjúkrunarheimilið Víðhlíð rekið af Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.  Við erum núna á tímamótum eða þannig er upplifun mín á stöðu öldrunarmála hér á Suðurnesjum.  

Samstaða og samvinna í þessum málaflokki innan Dvalarheimila aldraðra á Suðurnesjum virðist vera í uppnámi og er það miður.  Ég tel að þessum málum sé best borgið með samvinnu og framtíðarsýn allra sveitarfélaganna þar sem áhersla er lögð á virðingu, traust og náungakærleika.

Hér þarf að horfa á heildarlausnir skoða stöðuna frá öllum sjónarhornum, vita hvað við viljum vinna saman að og hvernig best er að því staðið. Hvernig sjá þeir sem eru gamlir í dag þessa þjónustu?  Hvað er góð þjónusta í þeirra huga?  Hverjir eru þeir þættir sem helst þarf að hlúa að svo hægt sé að tala um að aldraðir eigi áhyggjulaust ævikvöld? Hvað þýðir það annars „að eiga áhyggjulaust ævikvöld“? Í mínum huga er það að fólk finni sig öruggt og sátt, því sé sýnd virðing og það fái að halda sinni sjálfsvirðingu.

Þær spurningar sem ég set hér fram ættu allir að hugleiða.  Í dag er lögð áhersla á uppbyggingu hjúkrunarheimila enda þörf á slíku, sérstaklega hér á Suðurnesjum en við höfum dregist afturúr þeirri uppbyggingu þó vitað sé að þörfin hafi aukist ár frá ári.  Á Nesvöllum er verð að byggja  hjúkrunarheimili sem sannarlega mun taka á hluta af þeirri þörf, en við þurfum að vera meðvituð um að öldruðum fjölgar ört.  Það er jafnframt þörf á að skoða fleiri en eitt þjónustustig, því þjónusta við eldri borgara er margþætt og hvert þjónustustig skiptir máli.

Sem eldri borgari sé ég  þessi þjónustustig eins og öryggiskeðju þar sem hver hlekkur tekur við af öðrum eða þeir tengjast saman, en þessir þættir eru meðal annars; heimaþjónusta, heimahjúkrun, félagsstörf aldraðra, dagdvöl, hvíldarinnlögn, þjónustuíbúðir, dvalarheimili, almenn hjúkrunarheimili og hjúkrunarheimili með sértæk  úrræði eins og fyrir heilabilaða.

Aðgengi að góðri læknisþjónustu skiptir aldraða miklu eins og fólki á öllum aldri.  Suðurnesjamenn þurfa að vinna að nýrri sýn á rekstri og þjónustu Heilbrigðistofnunar Suðurnesja, hvernig viljum við byggja upp góða gæðaþjónustu sem við treystum á og berum virðingu fyrir?  Þetta er eitt af mörgum verkefnum sem fyrir liggja hjá okkur í samstarfi við lækna, yfirstjórn og rekstraraðila HSS.

Ég gæti án efa skrifað margar blaðsíður um hjúkrunar- og öldrunarmál svo hugleikin eru þessi mál mér, en læt hér staðar numið,  get þó ekki látið þetta frá mér án þess að benda á nokkra þætti sem við verðum að huga betur að.  Ég vil sjá að eldra fólk sem þarf að fara inn á Hjúkrunarheimili fari þangað sátt frá fyrsta degi.  Þjónustan þar þarf að byggjast á virðingu, öryggi og því að seinasta æviskeiðið sé ljúft og gleðiríkt.  Hættum að ofnota lyf eins og rannsóknir sína að gert sé  á hjúkrunarheimilum, byggjum upp þjónustuna á annan hátt m.a. með aukinni hreyfingu, sjúkraþjálfun og eftirliti  með líðan fólks og lyfjanotkun.

Í Heimaþjónustu þarf að leggja jafn mikla áherslu á samveru og þjónustu því er það nauðsynlegt að allt starfsfólk sem þessu starfi sinnir tali góða íslensku..  Ég hef talað vð fólk sem vill hafa val um þjónustu, fólk  sem vill  minnka við sig húsnæði, en þó geta treyst á öryggi m.a. með þjónustukjarna, húsvörð eða öryggisgæslu.

Að lokum þetta:  Ég skora á bæjarstjórnir á Suðurnesjum að vinna saman að uppbyggingu, rekstri og þjónustu við eldri borgara á svæðinu.  Ég veit að ætíð þarf að huga að kostnaði bæði við uppbyggingu og rekstur, gæta verður að hagkvæmni og tengja þjónustuþætti á sem hagkvæmastan hátt.  Spyrja hvað hentar hverju sveitafélagi og hvað getum við unnið saman okkur öllum til heilla.

Jórunn Alda Guðmundsdóttir
Sandgerði

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024