Hjólreiðar á Reykjanesi
Mig langar að leggja inn nokkur orð um hjólreiðar á Reykjanesi, já ég sagði hjólreiðar, fáir ef nokkrir staðir á Íslandi er betur til þess fallnir að stunda hjólreiðar en Reykjanes. Hér er flatlent og nægt rými en það vantar að skapa aðstæður til hjólreiða.
Hvernig væri að Norðurál og Hitaveitan kæmi sveitarfélögunum til aðstoðar og leggðu göngu og hjólastíga hvor hjá sér þ.e. Hitaveitan leggði bundið slitlag á veginn meðfram rörinu milli Fitja og Svartsengis, þarf ekki að vera í fullri breidd, og Norðurál leggur stíg milli Garðs og Reykjanesbæjar. Þá þurfa sveitarfélögin að leggja stíg milli Garðs og Sandgerðis annarsvegar og milli Reykjanesbæjar og Voga hinsvegar og dettur mér þá í hug að setja stíg yfir Stapann eftir gamla Keflavíkurveginum þá er hægt að notast við ströndina til Hafnarfjarðar.
Með þessu er hægt að hjóla á bundnu slitlagi frá Bláa Lóninu til Reykjanesbæjar þaðan til Garðs og Sandgerðis og að lokum frá Sandgerði um Ósabotnaveg út á Reykjanes til Grindavíkur og að Bláa Lóninu. Þetta er flottur hringur með miklum möguleikum fyrir ferðafólk hvort sem það kemur héðan af Reykjanesskaganum eða lengra að komna. Á leiðinni má finna kaffihús, matsölustaði, söfn, sögulegar byggingar eða hvað eina sem ferðamenn leita að. Það hefur verið unnið mikið og gott starf fyrir göngufólk á svæðinu því ekki að bæta hjólreiðum við? Með því að leggja stíg yfir Stapann, og kynna hann, er komin tenging við höfuðborgarsvæðið en þar hefur verið unnið mikið og metnaðar fullt starf í þágu hjólafólks með lagningu og merkingu göngu og hjólastíga um svæðið.
Notum nú niðursveifluna til að byggja upp jákvæða og þjóðfélagslega hagkvæma ferðamöguleika hér á svæðinu, hjólreiðar eru nefnilega einna öruggasti ferðamátinn sem hægt er að nota og svo er hann umhverfisvænn, brennir náttúrulegri fitu sem nóg er af nú á tímum.
Virðingarfyllst
Rúnar Helgason
hjólreiðamaður