Hjólastóllinn ekki frá Garðvangi
- segir í bréfi frá forstöðumanni Garðvangs.
Ágæti ritstjóri Víkurfrétta.
Á vf.is er frétt um að Tómast Knútsson, herforingi Bláa hersins hafi fundið hjólastól við bryggjuna í Garði.
Tómas á að hafa svarað vini sínum ,aðspurður um hjólastólinn: „Hjólastóll frá Garðvangi, sem betur fer var enginn í honum“.
Sl. laugardag hringdi ég í Tómas og spurði hann um það hvaða vissu hann hefði fyrir því að hjólastóll þessi hefði verið frá Garðvangi. Hvort hann hefði verið merktur? Nei, hann var ekki merktur sagði Tómas.
Það er rétt að það komi fram að Garðvangur á ekki hjólastólana sem fólkið notar, heldur fær fólk þá lánaða frá Hjálpartækjamiðstöðinni og þarf þá umsögn læknis og sjúkraþjálfara til. Þeim ber að skila.
Okkur starfsmönnum Garðvangs er ekki skemmt yfir svona fullyrðingu Tómasar og teljum að honum beri að leiðrétta hana.
Garðvangur hendir ekki eigum sínum eða annarra í sjóinn.
Finnbogi Björnsson, frkvstj. DS