Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 11. janúar 2001 kl. 10:39

Hjálpum fólki til sjálfshjálpar

Á næstu mánuðum munu starfsmenn Fjölskyldu- og félagsþjónusta Reykjanesbæjar kynna starfsemi stofnunarinnar í síðum Víkurfrétta. Starfsemi stofnunarinnar er mjög fjölþætt en meðal málaflokka sem þar eru teknir fyrir eru málefni aldraðra, fatlaðra, barnavernd, húsnæðismál o.s.frv. Hjördís Árnadóttir, félagsmálastjóri, ríður á vaðið í þessari viku og fjallar almennt um starfsemi Fjölskyldu- og félagsþjónustunnar.

Gleðilegt ár ágætu íbúar Reykjanesbæjar.
Eins og einhver ykkar hafa eflaust tekið eftir, hefur Fjölskyldu- og félagsþjónusta Reykjanesbæjar, lagt á það áherslu á síðustu árum með ýmsu móti, að kynna starfsemi sína og þá fjölbreyttu þjónustu sem bæjarbúum gefst kostur á að sækja til hennar.
Með því að gera þjónustuna sýnilegri og um leið aðgengilegri teljum við að með tímanum megi þurrka út aldagamla fordóma sem fylgt hafa einstökum þáttum félagsþjónustu, s.s. framfærslu og barnavernd.
Við finnum að þróunin er að breytast og fólk leitar til okkar í mun ríkara mæli en áður. Sumir með einföld mál sem auðvelt er að leysa, aðrir með mun erfiðari mál sem geta tekið langan tíma og mikla vinnu, þar til viðunandi lausn er fundin.
Eitt aðal markmið félagsþjónustulaganna er að sveitarfélögin hjálpi fólki til sjálfshjálpar með skipulögðum hætti og eftir því starfar Fjölskyldu- og félagsþjónusta Reykjanesbæjar. Þar er lögð áhersla á að hjálpa fólki til að finna leiðir til sjálfshjálpar.
Sem lið í þeirri viðleitni að kynna þjónustuna höfum við, starfsmenn Fjölskyldu- og félagsþjónustunnar, ákveðið að skrifa stutta pistla, um ýmis málefni tengd starfsemi okkar, sem munu birtast mánaðarlega í Víkurfréttum á þessu ári.
Það er von okkar að þið takið vel á móti okkur, en við munum leggja okkur fram um að taka vel á móti ykkur, þegar og ef þið leitið eftir þjónustu.

Verið velkomin.

Hjördís Árnadóttir, félagsmálastjóri


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024