Hjálmar Árnason bregst Suðurnesjamönnum!
Ýmsum hefur brugðið í brún undanfarna daga. Af ýmsum ástæðum þó. Fyrst þegar kunngert var að einkaaðilar og sveitarfélagið Reykjanesbær hafi gert samkomulag um frekari skoðun á möguleikum álvers í Helguvík. Síðan þegar iðnaðarráðherra brást ókvæða við þeim fréttum og hvatti sína heimamenn á Norðurlandi til að sýna samstöðu. Nýjasta undrunin er svo þegar Hjálmar Árnason tekur upp hanskann fyrir ráðherrann sinn í stað þess að rísa sjálfur upp og hvetja sína heimamenn á Suðurnesjum til samstöðu. Oft hafa heyrst raddir um að Hjálmar sé lélegur talsmaður síns svæðis en nú færir hann sönnur á það.
Að frumkvæði Árna Sigfússonar heyrast í fyrsta sinn í langan tíma jákvæðar fréttir af atvinnumálum á Suðurnesjum. Það var að frumkvæði heimamanna og Suðurnesjamenn virtust loksins ætla að standa saman, tala einu máli og blása lífi í atvinnusókn svæðisins. Enginn hefur litið svo á að öruggt sé að álver rísi í Helguvík á næstu misserum en menn hafa séð ástæðu til að fagna og styðja við bakið á heimamönnum þegar þeir sýna svona frumkvæði. Orð eru til alls fyrst Hjálmar!
Jón Gunnarsson þingmaður Samfylkingar og sjálfstæðismenn í Reykjanesbær tala sama máli í greinum og ályktunum síðustu daga. Menn biðu eftir rödd þingflokksformanns Framsóknarflokksins, sem á að heita þingmaður Suðurnesja, og þá væri í fyrsta sinn í langan tíma orðin þverpólitísk samstaða á svæðinu að nú verði rödd okkar látin draga til okkar atvinnu.
Menn hafa talað um að kjördæmapot Valgerðar Sverrisdóttur slái öll met um þessar mundir. Nú er einnig ljóst að sú vörn sem Hjálmar fer í við ummæli eigin ráðherra gegn svæðinu slær öll hans fyrri met sem lélegs talsmanns okkar svæðis. Vetnisvagnarnir hans Hjálmars í Reykjavík bæta ekki atvinnumálin á Suðurnesjum. Rétt væri að Hjálmar kynnti nú Suðurnesjamönnum hvað hann sjálfur hefur lagt til atvinnumála á svæðinu og hvernig hann hyggst aðstoða við atvinnuuppbyggingu í stað þess að gagnrýna tilraunir annara til góðra verka.
Georg Brynjarsson
stjórnarmaður í Sjálfstæðisfélagi Keflavíkur