Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Hjá sumum verður bara allt að gulli
Miðvikudagur 17. nóvember 2010 kl. 14:45

Hjá sumum verður bara allt að gulli


Hjá sumum verður allt að gulli.  Bara spurning um hvar það lendir.  Þessa dagana horfum við upp á hrun áður þokkalega stöndugs bæjarfélags þar sem hugmyndafræði meirihluta sjálfstæðismanna  hefur tekist á undraskömmum tíma að rústa því sem rústað verður. Hjálparlaust

Reykjanesbær sem áður var þokkalega stöndugur bær leitar nú ásjár lánadrottna sinna til þess að freista þess að ná tökum á skuldavanda sínum.  Skuldavanda sem ef skynsamlega hefði verið staðið að málum ætti ekki að vera fyrir hendi.  Án þess að nokkur þörf hafi verið á, hefur bærinn selt flest það sem hann áður átti.  Það var gert í nafni  hugmyndafræði græðginnar og vilja meirihluta sjálfstæðismanna til að reisa sér ævarandi minnisvarða.  Íbúar Reykjanesbæjar þurfa nú að þola háð og spott hvarvetna er þeir koma, sökum gjörða meirihlutans.  Eftir stendur minnisvarði háðungar.

Það er sárara en tárum taki að fylgjast nú með afdrifum þeirra eigna sem meirihluti sjálfstæðismanna hefur látið frá sér.  Á bæjarstjórnarfundi í gær kom fram hjá bæjarstjóra að fram væru komnar hugmyndir um að sveitarfélögin leystu til sín þær eignir sem á sínum tíma voru settar inn í Fasteign.  Þær hugmyndir byggðu á áliti ráðgjafa Capacent. Sama fyrirtækis  og forystumenn sjálfstæðisflokksins fullyrtu í kosningabaráttu sinni  að hefðu staðfest ágæti veru Reykjanesbæjar í Fasteign?  Ljóst er að sú afstaða sem tekin verður til niðurstöðu þessa máls mun hafa mikil áhrif á rekstrarstöðu bæjarins til langrar framtíðar.  Og kannski vissara í ljósi reynslunnar að þar komi fleiri að málum en forystumenn sjálfstæðisflokksins einir.  Það á reynslan að hafa kennt okkur.

Enn sárara er að horfa upp á afdrif Hitaveitu Suðurnesja. Mjólkurkúin hefur sannanlega verið seld í burtu og mjólkar nú sem aldrei fyrr nýja eigendur sína í Kanada. Á tveimur árum hefur HS Orka sýnt hagnað upp á tæplega fjóra milljarða.  Og það án þess að rekstur þess félags hafi nokkuð breyst eða að hafnar hafi verið neinar nyjar fjárfestingar sem nú skila þessum arði. Þessi afkoma var fyrirsjáanleg þegar til einkavinavæðingarinnar var stofnað.  Og kannski einmitt þess vegna var einkavætt?
En við íbúar Reykjanesbæjar fengum þó að halda eftir mjaltakerfinu sem á sama tíma og HS Orka hefur skilað tæplega fjögurra milljarða hagnaði hafa HS Veitur  skilað bæjarbúum hagnaði upp á rétt rúmar 250 milljónir.  Já sumum verður allt að gulli.
Maður veit ekki alveg hvort unnt sé að segja að spennandi tímar séu framundan, þegar litið er til þeirra frétta að vænta megi niðurstöðu lánadrottna hafnarinnar. Sú skuld er nú vel á sjötta milljarð króna og ljóst að bæjarsjóður mun ekki hafa efni á að standa við þær skuldbindingar sem stofnað hefur verið til. Að óbreyttu.  Þannig mun ákvörðun lánadrottnanna hafa mikil áhrif á hvernig fjárhagsáætlun meirihlutans mun líta út fyrir næstu ár.  Þar verðum við að biðja og vona.

Minnihlutar bæði Framsóknarflokks og Samfylkingar hafa í áranna rás gagnrýnt þau atriði sem að framan eru talin.  En jafnan fengið þau hrokafullu svör meirihlutans að um vitleysu væri að ræða og menn skildu ekki málið rétt.  Neikvæðni minnihlutans fremur en gagnrýn sýn og hugsun réði þar  ferðinni. Formaður bæjarráðs vill ennþá meina að minnihlutinn fyrr og nú viti ekkert um hvað verið er að tala, ef marka má furðulega ræðu hans á síðasta bæjarstjórnarfundi. Staðan nú talar sínu máli.

Tímarnir eru breyttir og tímabært að nýir siðir verði teknir upp í hinni stjórnmálegu umræðu í bænum okkar. Siðir þar sem bæði minni- og meirihluta auðnast í sameiningu að takast á við þau vandamál er við blasa.  Til þess þarf algera hugarfarsbreytingu aðalleikara meirihlutans sem  þessa dagana setja eitt og eitt mál á dagskrá, og  hyggjast st reyna að leysa stórkostlegan vanda stjórnarsetu sinnar með bútasaum.  Hér þarf að opna hverja skúffu og fá öll vandaræðamálin upp á borðið.  Og leysa þau sameiginlega. Eingöngu  þannig gæti margt það sem nú líkist skarni orðið að gulli. Er ekki margt  sem segir okkur að til þess sé vinnandi.

Með bestu kveðju,
Hannes  Friðriksson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024