Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hitaveita til skiptanna? - fyrir hverja?
Fimmtudagur 25. október 2007 kl. 10:55

Hitaveita til skiptanna? - fyrir hverja?

Harðvítugar deilur hafa að undanförnu staðið um þá ákvörðun stjórnenda REI (útrásarfyrirtæki OR) að sameinast Geysi Green Energy ehf. Svo harðvítugar hafa þær verið að sjálfstæðismenn í Reykjavík misstu völdin og við hefur tekið nýr meirihluti. Það er í raun hægt að halda því fram að það sem er að gerast og hefur verið að gerast í málefnum Hitaveitu Suðurnesja sé í raun miklu alvarlegra en það gerst hefur í málefnum OR. Orkveita Reykjavíkur er ekki lögð að veði heldur á hún aðeins hlut í útrásarfyrirtæki, en Hitveita Suðurnesja er í raun komin að 48% í eigu áhættusækinna aðila sem ætla sér að sjálfsögðu ekkert annað með henni en að græða. Fjárfestingin kostaði mikla fjármuni og eðlilega verður krafist góðrar ávöxtunar af þeirri fjárfestingu.

Einkavæðing HS
Undirritaður hefur ásamt mörgum öðrum reynt að halda Hitaveitu Suðurnesja í eigu sveitarfélaganna. Bæjarfulltrúar A-listans í Reykjanesbæ lögðu fram tillögu í bæjarstjórn þann 2. júlí sl. að sveitarfélagið nýtti sér forkaupsrétt á hlut ríkisins í HS. Því miður varð ekki samstaða um það í bæjarstjórn, heldur náði bæjarstjórinn fram þeirri ætlan sinni að GGE fengi hlutinn og raunar gott betur en það. Á þessum sama fundi sagði bæjarstjórinn að það yrði aldrei samþykkt að GGE eignaðist stærri hlut  í HS en Reykjanesbær. En núna er hann tilbúinn til þess að samþykkja að eitt fyrirtæki eigi tæplega helmingshlut í HS eða umtalsvert stærri hlut en Reykjanesbær á og segir nú í viðtölum að hann hafi bara átt við GGE. Hverslags málflutningur er þetta? Hversu langt  er bæjarstjórinn tilbúinn að ganga til þess að þóknast þeim sem hafa aðgang að peningum?

Hitaveitunni skipt upp
Nú tala sjálfstæðismenn um að skipta Hitaveitunni upp og segja að þeir ætli sér að eiga meirihluta í nýrri Hitaveitu. En þeir skýra ekki hvers konar hitaveitu þeir eru að tala um. Hin nýja Hitaveita þeirra sjálfstæðismanna er hitaveita sem á dreifikerfi og verður að kaupa sér aðgang að orku sem aðrir ráða yfir. Þessir aðrir verða þá útrásaraðilarnir eða einkaaðilar sem koma til með að eiga virkjanirnar og miklar landareignir ásamt nýtingarrétti á orkuauðlindum.
 
Aðferðin
Mér hefur veist erfitt að skilja hvers vegna salan á hlut ríkisins í HS var framkvæmd á þann hátt sem raunin varð og engar skýringar hafa fengist á því hvers vegna þetta var gert með þessum hætti. Engin fordæmi eru fyrir þessu. Hitaveitan var jú í opinberri eigu margra aðila og því algjörlega fordæmalaust að einn aðilinn ákveði hverjir megi kaupa og hverjir ekki.  Mönnum var greinilega ekki sjálfrátt í þessu. Nú er að koma í ljós að fleiri eru undrandi vegna þessarar ákvörðunar. Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins sl. sunnudag voru málefni orkufyrirtækja viðfangsefni greinarhöfundar og það er greinilegt að verulegur ágreiningur er uppi um á hvaða hátt er verið að framkvæma þessa meintu einkavæðingu. Að minnsta kosti er ljóst að sá sem skrifaði þetta Reykjavíkurbréf  er allsendis ósáttur við framkvæmdina.
Læt ég fylgja með þann kafla úr Reykjavíkurbréfi sem snýr að Hitaveitu Suðurnesja.

Úr Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins

Lítill angi þessa máls er sala ríkisins fyrr á þessu ári á hlut þess í Hitaveitu Suðurnesja.

1.Hvers vegna var sú ákvörðun tekin?
2. Hvaða rök lágu þar að baki? Það er ljóst að salan hefur leitt til þess að einkaaðilar hafa komizt með fótinn inn fyrir dyrnar í fyrirtæki sem áður var í opinberri eigu.
3.Eru einhver tengsl milli þeirrar ákvörðunar og þeirrar atburðarásar sem þjóðin hefur orðið vitni að í tengslum við Orkveitu Reykjavíkur?

Það er nauðsynlegt að upplýsingar liggi fyrir um þetta.  Einkavæðing orkufyrirtækja er svo stórt mál að það er óhugsandi að ákvarðanir verði teknar um slíkt án þess að þjóðin verði spurð. Inn í það blandast auðvitað umræður um stöðu þeirra fyrirtækja sem veita almenningi þá þjónustu að selja fólki rafmagn, heitt vatn og kalt. Þetta eru í eðli sínu einokunarfyrirtæki og óhugsandi að þau verði einkavædd. En þau byggja auðvitað á því að fá söluvörur sínar keyptar í heildsölu og hvernig á að koma í veg fyrir að einkavæddur heildsöluaðili og framleiðandi hafi smásölufyrirtækin í greipum sér varðandi verðlagningu?

Það er ljóst eftir þennan lestur að ýmsu þarf að svara í þessu máli. Höfundur hafnar algjörlega þeirri aðferðarfræði sem viðhöfð var við sölu á hlut ríkisins í HS og kastar fram þremur spurningum sem vert er að leita svara við, ásamt því að krefjast atkvæðagreiðslu þjóðinni til handa í þessu máli.  Ég ætla í lokin að leyfa mér að kasta fram nokkrum  hugrenningum um hverja þessara spurninga.

1. Þáði þáverandi fjármálaráðherra ráð frá aðstoðarmanni sínum Böðvari Jónssyni þegar ákvörðun um sölu var tekin og þá aðferðarfræði sem var viðhöfð? Og hafði þá aðstoðarmaðurinn samráð við samstarfsmenn sína í meirihlutanum í Reykjanesbæ?
2. Eða var þessi aðferð valin vegna þess að með henni var hægt að koma Hitaveitunni eða stórum hluta hennar í hendur einkaaðila sem er auðvitað í samræmi við kenningar frjálshyggjumanna sem nú ráða ríkjum í Reykjanesbæ?
3. Er það tilviljun að núverandi forstjóri GGE, Ásgeir Margeirsson er fyrrverandi aðstoðarforstjóri OR og verðandi forstjóri REI?  Er það tilviljun að Bjarni Ármannsson fyrrverandi Glitnisbankastjóri er núverandi stjórnarformaður REI sem er komið í eigu sömu aðila og eiga Glitni? Og er það tilviljun að sömu aðilar stjórna þessu öllu, GGE, REI, Glitni, FL Group, Fasteign hf. og kannski Reykjanesbæ?

Guðbrandur Einarsson
oddviti A-listans í Reykjanesbæ
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024