Hin augljósa leið
– Hannes Friðriksson skrifar
Vinur minn Margeir Vilhjálmsson er maður orða sinna, og skrifar nú boðaða grein sína í Víkurfréttir um málefni Eignarhaldsfélagsins Fasteignar sem mér er mjög að skapi að því leyti að hörð afstaða er tekinn gagnvart þeim lánadrottni er hefur haft hvað mest og neikvæðust áhrif á afkomu bæjarsjóðs mörg undanfarin ár. Margeir vill að við hættum að borga og málið sé dautt. Tækifærið til að fara þá leið kom. Það kom þegar unnið var að nauðasamningum félagsins, en þáverandi meirihluti sjálfstæðismanna valdi að loka á þá leið í taumlausri þjónkun sinni við lánadrottnana sem þeir höfðu svo sannarlega komið í mikil vandræði. Nú bera íbúar Reykjanesbæjar kostnaðinn að frjálshyggjufjármálaævintýri íhaldsins sem margsinnis hafði þó verið varað við. Um það erum við Margeir sammála. En um lausnina framundan erum við það því miður ekki.
Eignarhaldsfélagið Fasteign
Tillagan um að hætta að borga af lánum ætti mjög vel við ef um einkahlutafélag væri að ræða og menn sammála um að um frekari rekstur yrði ekki að ræða á þessari kennitölu. En hér er um sveitarfélag að ræða sem sinnir margvíslegum lögbundnum verkefnum sem verður að sinna, og ekki er möguleiki á að stofna nýtt sveitarfélag á nýrri kennitölu né skilja eftir sig skuldirnar og halda áfram eins og ekkert hafi í skorist eins og greinarhöfundur virðist gera ráð fyrir. Bakábyrgð sveitarfélagsins er fyrir hendi á öllum þessum lánum. Sveitarfélög geta ekki stundað kennitöluflakk sem margir hér á landi virðast líta á sem íþrótt.
Það verður að hafa í huga að Reykjanesbær er tilkynningarskyldur á markaði, og slík tilkynning þýðir að öðrum lánadrottnum er jafnframt tilkynnt að bærinn geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Á mannamáli þýðir það að þegar bærinn gefur út þá yfirlýsingu að hann hætti að borga mun eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga taka yfir rekstur bæjarins að öllu leyti með mun alvarlegri afleiðingum en þeim er Sóknin gerir ráð fyrir.
Þá verður t.d sundlaugum lokað, allur stuðningur við íþróttir og menningu lagður af, tónlistarskólum og hugsanlega leikskólum skellt í lás og sennilega það sem verra er, að fjölmargir starfsmenn bæjarins myndu ekki bara lækka í launum um 15% eins og samþykkt hefur verið í bæjarráði heldur beinlínis missa vinnuna.
Þessu verður ekki reddað með einni sölunni enn. Sá tími er liðinn og kemur vonandi aldrei aftur.
Alvarleiki málsins
Ég get fullvissað ykkur lesendur góðir um að greinarskrif mín þessa dagana grundvallast ekki á sérstakri þörf minni fyrir athygli eða að ég hafi fátt betra við tíma minn að gera Heldur eru þau eingöngu til komin sökum þess að þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á með óyggjandi hætti hve slæm og erfið staða bæjarins er í raun, skella menn enn við skollaeyrum og láta sem svo að fullt af auðveldum lausnum sé fyrir hendi.
Nú þegar staðan liggur fyrir virðist því miður svo að sjálfstæðismenn sem samþykktu að alvarlegra aðgerða væri þörf eftir valdasetu þeirra i tólf ár, geri nú flest það sem unnt er til að koma í veg fyrir að árangur náist. Það sést glöggt af hvernig þeir nú greiða atkvæði þess dagana hvort heldur í bæjarráði eða bæjarstjórn. Samstöðuyfirlýsing þeirra fyrir fullu húsi fólks í Stapa hefur reynst einskis virði þegar á hólminn er komið og vinna þarf öll erfiðu verkin.
Aðferð þeirrar er sú að gera sem minnst úr vandamálinu, tala niður lausnirnar og vinnu þeirra bæjarfulltrúa sem að núverandi meirihluta standa. Það finnst mér í meira lagi ósanngjarnt gagnvart öllu því góða fólki sem nú setur undir sig hausinn og vinnur nótt og dag að lausn vandamáls sem það á engan hátt ber ábyrgð á. Það fólk á svo miklu betra skilið.
Við höfum um tvo slæma kosti að velja. Sóknina eða að verða yfirtekinn af eftirlits-nefndinni.Engar aðrar leiðir hafa komið fram mér vitanlega. Sóknin er sú vægari þar sem leitast er við að viðhalda störfum og þjónustu bæjarins með því að ná niður þeim skuldum sem unnt er þar á meðal við Fasteign hf. Hin leiðin er miskunnarlaus niðurskurður þar sem einblínt er á fjárhagsstöðu bæjarins, þar er nánast allt undir.
Í mínum huga er það ljóst að ekkert er öruggt hvað Sóknina varðar. Svo grafalvarleg er staðan að ekkert má útaf bregða, svo að eftirlits-nefndin ákveði ekki að taka yfir. Það er mín skoðun eftir að hafa reynt að kynna mér málið eins og mér hefur verið kostur, að af tvennum afar slæmum kostum sé Sóknin þó vænlegri kostur. En til þess að hún nái fram að ganga verðum við að veita því fólki sem að lausninni vinnur tækifæri og traust. Vandamálið er það stórt og það alvarlegt að við höfum hreinlega ekki efni né rétt á að gera nokkurt það sem kemur veg fyrir hugsanlegan árangur. Það er í mínum huga hin augljósa leið.
Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson