Hilmar í 4. sæti Samfylkingar í Suðurkjördæmi
Ég, Hilmar Kristinsson formaður Uglu – ungra jafnaðarmanna á Suðurnesjum gef kost á mér í 4. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.
Ég er 28 ára gamall Keflvíkingur, búsettur á stúdentagörðum Keilis í Reykjanesbæ. Ég er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og stunda meistaranám í opinberri stjórnsýslu auk þess að starfa hjá Gagnavörslunni ehf. samhliða náminu.
Ég tel að sjaldan hafi verið jafn mikilvægt að ungt fólk gefi sig að stjórnmálum og taki þátt í því að móta íslenskt samfélag til framtíðar. Ungt fólk hefur mikið til málanna að leggja í þeim þjóðfélagsbreytingum sem eiga sér stað núna og tryggja þarf að rödd þeirra heyrist. Í því skyni hef ég ákveðið að gefa kost á mér í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Ég tel að á tímum eins og þeim sem nú eru sé þörfin á nýjum hugmyndum og breyttum áherslum gríðarlega mikilvæg. Sem starfsmaður í þekkingar- og sprotafyrirtæki sé ég með eigin augum hvaða tækifæri eru til staðar og hvaða árangri er hægt að ná ef vel er hlúð að nýjungum og framsæknum hugmyndum.
Ég hef verið virkur þátttakandi í félagsstarfi frá því að ég var gjaldkeri nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurnesja og árið 2002 tók ég þátt í stofnun Ungra jafnaðarmanna á Suðurnesjum og sat í fyrstu stjórn félagsins. Árið 2006 tók ég við embætti formanns og hef gegnt því síðan en ég hef ákveðið að láta af því embætti á aðalfundi Uglu 26. febrúar næstkomandi.
Ég gegndi stöðu alþjóðafulltrúa og gjaldkera í framkvæmdastjórn Ungra jafnaðarmanna á árunum 2003 til 2005 og sit nú í miðstjórn Ungra jafnaðarmanna.
Ég hef verið í stjórn kjördæmaráðs Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi frá því í nóvember 2008 en hef dregið mig úr því starfi vegna þátttöku minnar í prófkjörinu.
Reykjanesbær, 20. febrúar 2009
Hilmar Kristinsson.