Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Aðsent

Hið fullkomna samfélag
Miðvikudagur 23. apríl 2014 kl. 11:26

Hið fullkomna samfélag

– Una María Unnarsdóttir skrifar

Hvernig væri heimurinn öðruvísi ef allir væru heiðarlegir? Hvað ef siðleysi væri ekki til? Það væri sennilega mjög nálægt hinum fullkomna heimi, enginn þyrfti að hafa nokkrar einustu efasemdir, allir gætu treyst öllu og öllum. 
 

Það fer hrollur um mig þegar ég hugsa út í það hversu langt við erum frá þessum draumórum. Segjum sem svo að ég ætli að opna verslun, en ég ætla ekki að hafa neinn einasta afgreiðslukassa, ég ætla bara að treysta því að allir skilji eftir pening fyrir því sem þeir tóku á leiðinni út. Hversu margir haldið þið að myndu borga fyrir allt sem þeir tóku? Ég átta mig á því að þetta dæmi á sér engar stoðir í raunveruleikanum, en við getum í rauninni heimfært þetta yfir á öll önnur mál. Af hverju þarf allsstaðar fólk til að fylgjast með og passa að annað fólk svindli ekki?
 
Fyrir mér er það alveg ljóst að því nær sem við komumst þessum draumórum, því betra samfélagi lifum við í. Það myndi færa okkur talsvert nær ef hér ríkti fullkomið gagnsæi í bæjarmálum. Athugum að bæjarfélagið rekur sig á okkar peningum, fjármagn bæjarins er hluti af skattpeningum okkar bæjarbúa og hlutverk bæjarstjórnar er síðan að leggja þessa peninga í það sem mun gagnast okkur flestum á sem mestan og bestan hátt. Því finnst mér að við bæjarbúar eigum fullan rétt á að vita nákvæmlega í hvað peningarnir okkar fara og enn frekar ættum við að fá að taka þátt í stórum ákvörðunum. Það er nauðsynlegt að við bæjarbúar látum okkur varða þau mál sem eru í gangi í bænum okkar.
 

Bærinn okkar þarf aukið gagnsæi, ákveðnar siðareglur, meira samráð milli bæjarstjórnar og bæjarbúa en umfram allt þá þarf bærinn okkar einlægan heiðarleika.
 
Ég vona að þið hafið öll átt gleðilega páska, ég fékk þann gamla og góða málshátt „Batnandi manni er best að lifa“ og finnst því við hæfi að enda þennan pistil á orðunum „Í batnandi bæ er best að búa“.
 
Una María Unnarsdóttir,
Í framboði fyrir Beina Leið
Public deli
Public deli