Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Heyr mína bæn
Sunnudagur 18. desember 2011 kl. 13:40

Heyr mína bæn

Það er ekki ofsögum sagt, að nágrannar okkar á norðanverðu Reykjanesi hafi tekið dýfu í drottins nafni. Kirkjukórarnir bæði í Sandgerði og Garði sungu sinn svanasöng og organistinn fékk rauða spjaldið í eftirrétt. Það verður erfitt að fá annað eins „einn fyrir tvo“ tilboð á organista. Ég segi hinsvegar að ómar hins almáttuga séu aldrei of dýru verði keyptir. Trúi varla að þeim hafi orðið á í messunni. Prestur með vinnukonugrip dugar varla boðskapnum.

Við erum svo blessunarlega lánsöm hér í Reykjanesbæ að hafa á að skipa afburða og áhugasömu söngfólki, sem glæðir orgelhljómana nýju lífi. Organistinn í Keflavíkurkirkju er Guðs gjöf og gefur prestunum ekkert eftir. Án efa ástæða þess að hér blómstrar sönglistin sem aldrei fyrr. Þurfum þó að taka höndum saman og leggja þeim lið við orgelsjóðinn í tilefni aldarafmælis kirkjunnar innan tíðar. Skelli þúsund kalli á mánuði í greiðsluþjónustu og bið þúsund aðra þenkjandi að gera hið sama. Komumst langt á þremur árum með því móti.

Talandi um kirkjur, þá er  í Höfnum mitt uppáhald og laðar mig alltaf að sér enda kostaði hún Wilhjálm Chr. Hákonarson heil 300 kýrverð í byggingu. Ásýndin hefur lagast til muna að undanförnu þó ýmislegt megi enn bæta á 150 ára afmæli hennar. Tók að mér að mála ytra byrðið fyrir nokkrum árum með velvöldum Hafnamönnum og viðurkenni fúslega að við höfðum skrópað síðastliðin sumur með penslana. Lofa bót og betrun næsta sumar.

Á Hvalsnesi í Sandgerði stendur einnig ægifögur og reisuleg kirkja sem dannebrogsmaðurinn Mið-Ketill Ketilsson, stórbóndi í Kotvogi og þáverandi eigandi Hvalsnestorfunnar kostaði, enda vildi hann ekki minni maður vera en Willi Hákonar. Karlinn hefur svei mér varla gert ráð fyrir að kórlaust yrði á 21. öldinni í guðshúsinu ægifagra! Hef tekið ófáa rúnta þangað á mótorhjólinu mínu síðastliðin sumur og lagt lúna lófa á velgjörð hans í hvíldinni. Kirkjan byggð úr tillhöggnum steini og grjótið sótt í klappir í nágrenninu. Allur stórviður fenginn úr nálægum fjörum. Seldi hjólið síðastliðinn vetur og hef ekki komið þangað síðan. Siðbótar er þörf og umhyggju fyrir Guði á ýmsum bæjum. Amen-haleljúja!

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024