Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hestar og menn
Miðvikudagur 25. október 2006 kl. 11:03

Hestar og menn

Í síðustu Víkurfréttum birtist grein eftir Gunnar Pétur Róbertsson þar sem frjálslega var farið með staðreyndir.  Greinin er full af rangfærslum og eru mér lögð orð í munn sem ég hef aldrei viðhaft og gerðar upp meiningar sem ég ekki hef.

Í umræðum á Alþingi um fjáraukalög ræddi ég forgangsröð ríkisstjórnarinnar.  Þar vakti ég athygli á fjárveitingu upp á 330 milljónir til byggingar á reiðhöllum. Ég hafði leitað án árangurs að aukafjárveitingum til Barna og unglingageðdeildar Landsspítalans ( BUGL), Landspítala háskólasjúkrahúss, SÁÁ og  Heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni.  Það er kunnara en frá þurfi að segja, að allar þessar lífsnauðsynlegu stofnanir eru í miklu fjársvelti þó tekjur ríkisins séu miklu meiri en ráð var fyrir gert í áætlunum.

Í umræðunni um fjáraukalögin hljóp mér kapp í kinn við að sjá þessa forgangsröð og vakti athygli á henni.  Í ræðu minni sagði ég hvergi að ekki mætti veita fjármunum til byggingar reiðhalla, reiðskemma, eða reiðskála. Ég kallaði aldrei eftir því að byggingum slíkra mannvirkja yrði hætt og peningarnir notaðir til annara verka eins og greinarhöfundur heldur fram í Víkurfréttum.  Greinarhöfundur leggur mér einnig í munn þau orð að ég teldi að stuðningur við hestamennsku væri ógn við íslenska velferðarkerfið!  Gunnar klykkir síðan út með því að geta sér marg oft til um það, hvað ég virðist vita eða hvað ég virðist ekki vita og kemst síðan að þeirri undarlegu niðurstöðu að mér finnist að fjárveitingar til íþróttamannvirkja séu tilræði við velferðarkerfið!!  Það verður að gera þá kröfu til þeirra sem vilja gagnrýna orð eða verk annarra að þeir falli ekki í þá gryfju að gera þeim, sem á að gagnrýna, upp orð og skoðanir eins og gert var í grein Gunnars. 

Ég get vel skilið að hestamenn, sem sjá fram á langþráðar fjárveitingar til að bæta aðstöðu fyrir hestamennsku bregðist við og verji þá hagsmuni með oddi og egg.  Það hlýtur þó að mega benda á, að í sömu lögum og setja fjárveitingu í það verk, vantar sárlega fjárveitingar til margra afar brýnna mála sem snerta velferð og heilsu landsmanna.  Margir hestamenn sem hafa haft samband við mig undanfarna daga hafa skilið að ræðan á þingi var ræða um forgangsröð og hvatning til ríkisstjórnarinnar um að standa sig í velferðarmálum, en ekki árás á hestamenn eins og Gunnar gengur út frá.

Jón Gunnarson
alþingismaður

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024