Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hertur handavinnupoki
Laugardagur 12. maí 2012 kl. 17:02

Hertur handavinnupoki



Fór á ball um helgina og skemmti mér konunglega. Hitti fullt af skemmtilegu fólki og átti nokkur svona öskur-faðmlög (þar sem maður öskrar fyrst og faðmar svo). Ég var líka ákveðin í að skemmta mér vel enda langt síðan ég hef fengið almennilega útrás á dansgólfinu. En eitt er alveg á hreinu og það er að maður mætir ekki eins og hertur handavinnupoki á svona ball - allavega ekki nema einu sinni!

Það var fyrir nokkrum árum sem ég ákvað að drífa mig á ball á Hótel Íslandi - Hollywood ball - en vísunin er í skemmtistaðinn vinsæla sem ég sótti mikið á sínum tíma. Það var mikil stemning fyrir ballinu, svo mikil að fólk auglýsti eftir miðum í útvarpi og á netinu. Manstu hver ég var hefur líklega sjaldan átt jafn vel við og gamlir Hollytöffarar og píur streymdu í Ármúlann með von um að hitta gamla félaga og rifja upp skemmtilega tíma. Það verður að viðurkennast að fyrir ballið var ég að velta fyrir mér hvernig þetta yrði. Hvernig litu gömlu töffararnir út í dag? Væru þeir nánast óbreyttir, eins og við vinkonurnar, eða sátu þeir uppi með velmegunarbumbu og þunnhærðan skallann. Myndum við yfirleitt þekkja þá eða yrði þetta samansafn af óþekkjanlegum miðaldra mönnum! Ég deildi þessu öllu með vinkonum mín en átti svo sannarlega eftir að fá þessar hugleiðingar mínar hressilega í bakið.

Við vinkonurnar löbbuðum nokkra hringi um staðinn á milli þess sem við tókum sveiflur á dansgólfinu. Í einum slíkum hring vatt sér að mér ungur maður – já á mínum aldri gerði ég ráð fyrir. Hann spurði mig hvort ég hefði stundað Holly hér í gamla daga og ég játaði því. Hann sagðist aldrei hafa komið þar inn því hann hefði verið smábarn þegar staðurinn var sem vinsælastur. Þetta kom mér verulega á óvart – hefði getað svarið að ,,barnið“ var á mínum aldri. Hann leit síðan af mér og yfir á vinkonuhópinn minn. Vatt sér síðan aftur að mér og benti á eina vinkonu mína (sem er ári eldri en ég) og spyr mig ,,er þetta dóttir þín“. Ég bjóst við að hann væri að gera tilraun til að vera fyndin og jafnvel að reyna að pirra mig svo ég leit djúpt í augu hans og sagði „já, ég ákvað að leyfa henni að koma með“. Þá segir minn maður: ,,ég verð að segja þér það að þú lítur ótrúlega vel út miðað við aldur“. Þarna var mér ljóst að hann var ekki að grínast. Ég spurði hann hvort hann héldi virkilega að ég væri móðir hennar (þarna langaði mig mest til að sparka í sköflunginn á honum). Það var á þessu augnabliki sem hann áttaði sig á mistökunum og gerði heiðarlega tilraun til að biðjast afsökunar - ca 20 heiðarlegar tilraunir. En skaðinn var skeður og ég kvaddi hann með ísköldu augnaráði og sagði ,,passaðu útivistartímann vinur“. Eftir þetta varð ég rosalega upptekin af klæðaburði mínum og útliti þetta kvöld. Gat ég ekki reynt að vera aðeins meiri skutla, þessi grái hnésíði kjóll var vissulega þægilegur en minnti frekar á eitthvað sem nunnurnar í Hafnarfirði klæðast....og af hverju hafði ég ekki farið í push up brjóstarhaldara .....og hvers vegna hlustaði ég ekki á Kalla Berndsen og tróð mér í shock up sokkabuxur þó þær þrengdu óþægilega að öllu helstu líffærum í kviðarholinu. Hvernig datt mér í hug að vera í nánast flatbotna ömmu-skóm! Mér fannst ég á svipstundu líta út eins og Mary Poppins með börnin mín út á lífinu.

En þessu var ekki lokið. Ég fór í fatahengið klukkan tvö því ég áttaði mig á að komið var yfir svefntíma hjá „gömlu“ konunni. Þar sem ég tróðst áfram í endalausri biðröð finn ég hvar tekið er um axlir mínar - eða stuðst við þær öllu heldur. Ég sný mér við og við hlið mér stendur fullorðin kona (já töluvert eldri en ég) og ég hugsaði ,,sú er góð að halda þetta út svona lengi“. Sú hafði orð á því hversu mikið af ungu fólki hafi verið þarna um kvöldið sem hafi aldrei í Holly komið og svo bætti hún við (á innsoginu) ,,en auðvitað var líka fullt af fólki á okkar aldri“!

Þetta var mátulegt á mig miðað við hugleiðingar mínar fyrr um kvöldið. En það sem skiptir kannski mestu máli er að ég geri mér grein fyrir því að fegurðin hefur minnst með upphífingar og kúlurass að gera en því meira um eigin líðan og virðingu fyrir sjálfum sér. Ef ég mæti á ball eða aðrar samkomur eins og hertur handavinnupoki með allt á hornum mér, þá skiptir ekki máli þó ég líti út eins og milljón dollara módel. Ég get geislað í gráum kjól og flatbotna skóm á sama tíma og ég get sent frá mér eiturefnaúrgang í flotta djammdressinu og öllu aukahlutunum hans Kalla Berndsen. Eitthvað hefur mér ekki liðið nógu vel með sjálfa mig þetta kvöld og þá er auðveldara að reyna að slökkva ljós annarra í stað þess að einbeita sér að því að kveikja á eigin ljósi. Þannig að ef ég er ekki sú manneskja sem mig mundi langa til að hitta þá er það annað hvort að gera eitthvað í því eða halda sér heima við og menga þannig sem minnst.

Að lokum: „Fyrirgefið mér strákar mínir, þetta kemur ekki fyrir aftur“. Herti handavinnupokinn verður skilinn eftir heima héðan í frá.

Þangað til næst - gangið þér vel!
Anna Lóa

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024