Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hér skortir framtíðarsýn og stefnu
Miðvikudagur 29. desember 2010 kl. 09:39

Hér skortir framtíðarsýn og stefnu

Þegar litið er um öxl við lok árs 2010 er ýmislegt sem kemur upp í hugann. Árið hefur í efnahagslegum skilningi verið gríðarlega erfitt, bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Atvinnuleysi er mikið, á íslenskan mælikvarða, og óviðunandi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sum landsvæði koma verr út en önnur, og má nefna Suðurnes sem dæmi þar um. Þar er atvinnuleysi nú um 13%, það langmesta hér á landi. Fjöldi fólks hefur flúið land í leit að nýjum tækifærum og fyrirtæki hafa lagt upp laupana.

Án þess að boða einhverja svartsýni má velta fyrir sér hvort árið 2010 sé upphaf að eins konar ragnarökum í íslensku athafnalífi, eða hvort þar verði, þegar til framtíðar er litið, horft til upphafs að löngum afturbata í íslensku atvinnulífi.

Ástæða þess að ég nefni langan afturbata er sú að mikil hætta er á því að hann verði langur þar sem skortur er á framtíðarsýn og stefnumörkun fyrir land og þjóð. Stjórnvöld eru einfaldlega of upptekin við björgunarstörf, og enginn vill fara af brunastað fyrr en eldur er slökktur. Það er von mín að nú fari að gefast meiri tími til líta til framtíðar, þar sem börnin okkar verða við stýrið. Það er skylda okkar að láta þeim í té flothelda þjóðarskútu.

Einn atburður stendur að mínu mati upp úr á árinu 2010 og kalla mætti vendipunkt í íslensku atvinnulífi og í íslensku samfélagi. Sá vendipunktur varð þann 5.janúar 2010, þegar forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, neitaði að skrifa undir IceSave-lögin og færði valdið til þjóðarinnar, sem felldi svo samninginn í mars sama ár.

Segja má að sá samningur sem nú liggur fyrir sé mun hagstæðari en sá fyrri, en gallinn á honum hins vegar sá að kröfulýsingin er í íslenskum krónum en eignirnar, sem eiga að standa undir greiðslum, erlendar. Endurheimtur gamla Landsbankans hafa verið að aukast en gengi íslensku krónunnar hefur einnig verið að styrkjast. Því má segja að gengisáhættan í þessum samningi sé mikil.

Þetta er án efa vendipunktur fyrir íslenskt samfélag og komandi kynslóðir.
Þótt synjun forsetans hafi verið vendipunktur í íslensku samfélagi, má nefna til viðbótar nokkur atriði sem vakið hafa mikla athygli og ættu að vekja fólk til umhugsunar um hvert stefnir hér á landi.


Þjóðhagsspáin og horfur
Hagvaxtarspár Seðlabankans og Hagstofunnar gera ráð fyrir að einkaneysla muni standa undir þeim 2% hagvexti sem spáð hefur verið á árinu 2011. Það bendir hins vegar allt til þess að framlag einkaneyslunnar til hagvaxtar hér á landi verði mun minna en gert er ráð fyrir.
Erfitt er að sjá hvernig einkaneyslan á að ýta undir hagvöxt hjá jafn skuldsettu þjóðfélagi og því íslenska. Skuldsetning takmarkar einfaldlega ríkisumsvif, allar fjárfestingar sem og einkaneyslu til hagvaxtar. Það gefur auga leið að skuldsetning heimila gerir það að verkum að þau hafa minna aflögu og þurfa að auka sparnað á kostnað neyslu. Margir hafa nefnt að rýmkun heimilda varðandi séreignarsparnað geti ýtt undir einkaneysluna en hætta er á því að margir hafi nú þegar nýtt sér þær heimildir til þess að standa undir skuldabyrðinni. Því getum við varla búist við því að einkaneyslan standi undir miklum hluta hagvaxtar. Sé litið til fyrirtækjanna þá sést að staða margra þeirra kemur í veg fyrir nokkra fjárfestingu af þeirra hálfu. Ríkissjóður þarf einnig að draga saman seglin og því ekki hægt að búast við miklu þar. Hins vegar þurfa stjórnvöld að fara í sértækar aðgerðir hvað snertir atvinnulíf á Íslandi, og fyrirhugaðar stórframkvæmdir í vegamálum eru sannarlega lóð á þá vogarskál.
Einnig má velta fyrir sér þeirri hugsun sem býr að baki þeim forsendum sem eiga að drífa hagvöxtinn áfram, því gangi þessar spár eftir og hagvöxturinn muni aukast með einkaneyslu þá getur það haft neikvæðar afleiðingar í för með sér. Slíkt dregur úr sparnaði heimila og möguleika þeirra til að draga úr skuldsetningu og því gæti lengri tími liðið þar til hagkerfið færist nær einhvers konar jafnvægi.


Auka þarf útflutning

Verðmæti útflutnings á hátæknivörum og þjónustu á árinu 2009 nam um 37 milljörðum íslenskra króna, en það jafngilti um 5,5% af heildarútflutningstekjum þjóðarinnar. Íslendingar þurfa að auka útflutning sinn til styrktar hagkerfinu. Við getum litið til Danmerkur í þessu samhengi en Danir hafa náð að byggja upp hagkerfi sem byggir nær eingöngu á útflutningi. Það getum við Íslendingar tekið okkur til fyrirmyndar. Við þurfum að hætta að vera fyrst og fremst hráefnisframleiðendur og finna leiðir til að byggja hagkerfið upp á enn verðmætari útflutningi. Við höfum til að mynda ekki unnið nógu vel úr áli á Íslandi og ættum að skoða vel næsta þrep í þeim málum. Við höfum verið að byggja álver og fyrir liggur að byggja eigi fleiri slík á Íslandi, en við þurfum að frumvinna álið betur og mynda þannig auknar útflutningstekjur.
Einnig þarf að styðja við íslenska hönnun enda margir mjög frambærilegir hönnuðir á ýmsum sviðum á Íslandi. Mikil gróska er um þessar mundir í hinum ýmsu greinum, en það þarf að styðja vel við bakið á íslenskri hönnun og við frumkvöðla.


Stjórnarþingmenn styðja ekki fjárlög

Það er líklega einsdæmi að stjórnarþingmenn styðji ekki fjárlög ríkisstjórnar sinnar, eins og þrír þingmenn gerðu nú fyrir skömmu. Slík óeining í stjórnarflokki er ekki til þess fallin að efla og sameina þjóðina. Ég geri ekki ráð fyrir að nokkur alþingismaður hafi samþykkt niðurskurðarfjárlög með bros á vör, en fleira þarf að gera en gott þykir. Ég get ekkert neitað því að margt hefði ég viljað sjá öðruvísi í fjárlögum næsta árs, en líklega verður þessi hjáseta þingmannanna þriggja á sinn hátt einhvers konar vendipunktur í íslenskum stjórnmálum þegar til lengri tíma er litið.


Samþykkt fjárlaga í desember 2010 og skortur á framtíðarsýn

Fjárlögin fyrir 2011 hafa verið samþykkt og í þeim er margt sem vekur mann til umhugsunar um hvert á að stefna í íslensku samfélagi. Margt sem sést í fjárlögunum er með ágætum en annað virðist vera illa ígrundað og gjörsamlega tilgangslaust þegar litið er fram á veginn.
Eins og ég hef áður komið að skortir að mínu mati framtíðarsýn og skýra stefnumörkun fyrir land og þjóð. Við erum rík af auðlindum, mun ríkari en margar aðrar þjóðir, en okkur skortir stefnumörkun og framtíðarsýn um það á hverju við viljum byggja til framtíðar. Það vekur upp margar spurningar þegar litið er um öxl til þess kerfishruns sem varð hér á landi árið 2008. Hvað höfum við lært af þessu hruni og hvernig munum við þróast áfram og ná okkur upp úr þeirri lægð sem hér hefur síðan legið eins og mara á íslensku þjóðinni.
Mótuð skýr stefna fyrir samfélagið þarf að koma til. Hvers konar þjóð erum við og á hverju viljum við byggja þegar til lengri tíma er litið? Við veltum því fyrir okkur í dag hvað komandi kynslóðir munu þurfa að greiða fyrir IceSave samning þann sem nú verður gerður en það heyrist ekkert um það á hverju þær kynslóðir munu byggja.
Hvar er skýr stefna í skipulagsmálum á Íslandi? Hvers konar starfsemi viljum við hafa á Íslandi og hvar á sú starfsemi að vera staðsett. Ljóst er að það er enginn „Silicon Valley" hér á landi ef svo má segja, en við þurfum að móta stefnu í skipulagsmálum um leið og atvinnumál og menntamál eru tekin enn fastari tökum en gert hefur verið.
Hvernig starfsfólk mun Ísland þurfa eftir 10 ár, eða 20 ár? Verður skortur á hæfileikaríku og vel menntuðu fólki á Íslandi? Það virðist engin fyrirliggjandi stefna vera til um það hvaða atvinnugreinar við viljum byggja upp á Íslandi og þar af leiðandi vantar stóran hluta inn í stefnu stjórnvalda í menntamálum. Það eru greinar hér á landi, eins og hátækniiðnaðurinn, þar sem skortur er á tölvunarfræðingum og verkfræðingum. Sé litið til flugmála á Íslandi þá væri auðveldlega hægt að auka starfsemi á sviði flugsins, og þar skortir m.a. flugvirkja.
Ef Íslendingar byggju yfir skýrri sýn þess efnis hvert ætti að stefna í framtíðinni væri hægt að vinna markvisst að því að fjölga fólki með ákveðna þekkingu og reynslu á viðkomandi sviðum. Það er ekki nóg að það vanti atvinnutækifæri á Íslandi og nóg sé að byggja álver eða gagnaver svo dæmi séu nefnd, það verður að liggja fyrir hverjum kostum starfsmenn framtíðarinnar þurfa að vera búnir.


Að lokum

Þegar sagnfræðingar framtíðarinnar koma til með að kryfja árið 2010 til mergjar munu þeir án efa staldra við margháttuð áhrif Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á málefni Íslendinga. Þess verður minnst hve örðugt það hafi verið fyrir ríkistjórn að vinna sjálfstætt að ýmsum framfaramálum þjóðarinnar, þegar við hlið ráðherra situr ávallt „ökukennari" sem tilbúinn er að kippa í AGS-neyðarhemilinn og benda á umferðarmerkið „framúrakstur bannaður". En sögurýnendur munu samt greina ýmis jákvæð teikn á lofti í árslok 2010, og benda á heilladrjúgar vísitölur, s.s. þeirrar að ársverðbólga hafi verið komin niður í 2,5% og hafi ekki verið minni í 6 ár, og heildarvísitala þorsks, sem er líklega okkar helsta vísitala, hafi verið 20% hærri í svokölluðu „haust­ralli" Hafrannsóknastofnunar en var á árinu 2009, og sú hæsta sem mælst hefur.
Við skulum því þrátt fyrir allt leitast við að horfa björtum augum fram til nýs árs 2011, sem mun meðal annars verða minnst sem ársins þegar Íslendingar fengu á ný fullt forræði yfir fjármálum sínum og kvöddu AGS. En minnumst þess samt að vandi fylgir vegsemd hverri. Megi stjórnvöld og Seðlabanki Íslands bera gæfu til að setja efnahagslífinu leikreglur í líkingu við þær sem bankastjórnin hefur nú skýrt frá að unnið sé að, og vill geta gripið til þegar „ökukennarin“-AGS, hverfur af landi brott.

Ásta Dís Óladóttir er framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar og formaður Atvinnuuppbyggingarnefndar á Suðurnesjum.