Hér á ég heima
Hækkun leikskólagjalda Reykjanesbæjar nú um áramótin hefur fallið í grýttan jarðveg meðal foreldra leikskólabarna. Finnst sumum freklega að sér vegið, tala um svívirðu, og þaðan af verri hluti. Við hjónin höfum verið viðskiptavinir leikskóla í Reykjanesbæ sl. 10 ár og verðum væntanlega enn um sinn. Börnin okkar þrjú hafa öll notið þar vistunar frá tveggja ára aldri, en það er sá aldur sem flest sveitarfélög hafa reynt að miða þjónustuna við. Flestum hefur reyndar tekist það illa og víðast hvar eru biðlistar eftir leikskólaplássum, ekki í Reykjanesbæ. Hér er þjónustustigið einfaldlega hærra en í flestum öðrum sveitarfélögum. Það á reyndar einnig við um flest annað sem lýtur að þjónustu við börnin okkar. Nægir þar að nefna frístundaskóla fyrir börn í 1.-4. bekk, og mötuneyti með heitar máltíðir í hádeginu í öllum skólum, svo ekki sé minnst á gjaldfríu strætisvagnaþjónustuna. Reykjanesbær er einmana í hópi þeirra sveitarfélaga sem bjóða þessa þjónustu, því hann er einn í þeim hópi!
Það skýtur því frekar skökku við þegar hlutirnir eru skoðaðir í samhengi hver við annan, að íbúum í Reykjanesbæ þyki freklega á sér brotið þegar gjaldskrá fyrir þjónustu leikskóla er leiðrétt til samræmis við það sem gerist í flestum öðrum sveitarfélögum. Yfirleitt hefði það talist eðlilegt að þar sem þjónustustigið er hæst væri líka greitt hæsta verðið. Það er þó ekki reyndin, við búum við hæsta þjónustustig sem þekkist en greiðum lægra verð en víða annars staðar, og örugglega það lægsta ef borið er saman heildstætt, verð og þjónusta. Við hljótum að þurfa að horfa á þjónustuna við börnin okkar í heild sinni. Ekki einblína bara á það 4 ára tímabil sem þau ganga í leikskóla. Lögum samkvæmt er það 18 ára tímabil sem börnin eru á okkar framfæri og því eðlilegt að horfa á þjónustuna í því samhengi.
Sumir hafa gagnrýnt það að bera Reykjanesbæ saman við Reykjavíkurborg. Hvað er að því? Þar býr um þriðjungur landsmanna og þar er þjónustustigið næst því að vera samanburðarhæft við Reykjanesbæ. Er þá óeðlilegt að bera saman verð á þjónustunni þar og hér?
Það vill svo til að samanburður sá sem birtur var í auglýsingunni um gjaldskrá Reykjanesbæjar gat auðveldlega átt við um mína fjölskyldu. Ég sá ekkert sorglegt við þennan samanburð. Þvert á móti fannst mér hann ánægjuleg staðfesting á því sem ég hef alltaf haldið fram, að hér er ekki bara gott að búa, hér er hagstætt að búa - hér á ég heima!
Garðar K. Vilhjálmsson
B.B.A. og stud. jur
P.s. Svo vill svo skemmtilega til að bænum er stjórnað af fólki sem hlustar á gagnrýnisraddir og tekur tillit til þeirra. Í okkar tilfelli (faðir í fullu námi) verða endanlegar gjaldskrárbreytingar leikskólanna til þess að okkar kostnaður lækkar um liðlega 2000 kr. á mánuði. Fjölskylduvænt? Dæmi hver fyrir sig