Helguvík- Grafreitur íslenskrar stóriðjustefnu

Það eru allir orðnir ágætlega upplýstir um þá atburðarráðs sem átt hefur sér stað í Helguvík. Þar blasa við okkur hálfbyggt álver og gjaldþrota kísilver. Því til viðbótar hefur annað kísilver fengið leyfi til að þess að byggja og hefja þar rekstur. Allt hefur þetta verið til verulegra vandræða og íbúar búnir að fá nóg. Lái þeim hver sem vill. En hvers vegna fór þetta svona og hvernig stendur á því að hægt var að koma okkur í þessa stöðu?

Einhvern veginn virðist það vera svo, að hægt var að múlbinda sveitarfélagið okkar á þann hátt að engin leið virðist út þrátt fyrir að ekki hafi verið staðið við neitt af hendi gagnaðila. Sveitarfélagið Garður er einnig í sömu stöðu gagnvart álverinu. Það hlýtur að vekja eftirtekt og þarfnast frekari athugunar. Getur það verið að sveitarfélagið þurfi endalaust að bíða og taka því sem að höndum ber?

Getur til dæmis skiptastjóri selt kísilverksverksmiðjuna til einhverra aðila sem haldi bara áfram eins og ekkert hafi í skorist. Getur skiptastjóri bara selt starfsleyfið, fjárfestingasamninginn og umhverfismatið og getur það verið að hlutafélagið Thorsil geti haldið okkur á snaganum svo árum skiptir bara af því að fyrrverandi meirihluta lá svo á að skrifa undir samninga við þá rétt fyrir síðustu kosningar? Fjármögnun á þeirri verksmiðju átti að vera lokið fyrir löngu en ég fæ ekki séð að hún hafi nokkurn tímann byrjað.

Það er nauðsynlegt fyrir okkur samfélag að endurskoða þá stóriðjustefnu sem ríkt hefur hér á Íslandi í áratugi. Við þurfum ekki á slíku að halda og getum nýtt krafta okkar í að fást við eitthvað annað og merkilegra. Vonandi verður ekki af frekari framkvæmdum í Helguvík og tækifærið verði nýtt til þess að grafa þennan hugsanagang endanlega.

Guðbrandur Einarsson
oddviti Beinnar Leiðar