Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Helgistund og ganga í Krýsuvík á sólstöðukvöldi
Þriðjudagur 19. júní 2012 kl. 10:37

Helgistund og ganga í Krýsuvík á sólstöðukvöldi



Sumarsólstöður á hlaupári 2012 verða miðvikudaginn 20. júní nk. Þá um kvöldið kl. 20 mun Vinafélag Krýsuvíkurkirkju gangast fyrir stuttri en táknrænni helgistund við grunn Krýsuvíkurkirkju, sem brann fyrir fáeinum árum. Sr. Gunnþór Þ. Ingason, sérþjónustuprestur á sviði þjóðmenningar, og sr. Þórhallur Heimisson, sóknarprestur Hafnarfjarðarkirkju, munu stýra henni. Eftir helgistundina verður farið í stutta göngu um Krýsuvíkurtorfuna og boðið síðan í kvöldkaffi í Sveinssafni, húsi málarans. Þar stendur yfir málverkasýningin ,,Charlottenborgarárin.”

Helgistundin og gangan í Krýsuvík á sumarsólstöðukvöldi miða að því að viðhalda helgihaldi í Krýsuvík þrátt fyrir kirkjubrunann. Bygging nýrrar Krýsuvíkurkirkju, sem Vinafélagið beitir sér fyrir og er nemendaverkefni Iðnskólans í Hafnarfirði, gengur vel og standa vonir til að hún verði vígð sumarið 2013.

Sumarsólstöður minna á háa himinsól og undur Guðs sköpunar, sem hún lífgar í krafti hans en jafnframt á sólnanna sól, elsku Guðs sem opinberast í Jesú Kristi. Í þeirri trú og vitund verður komið saman við grunn Krýsuvíkurkirkju á sumarsólstöðukvöldi og beðið fyrir endurreisn hennar og velfarnaði mannlífs og alls lífríkis. Allir eru hjartanlega velkomnir.

Vinafélag Krýsuvíkurkirkju

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024