Helga Tryggvadóttir – minning
Útför fór fram 28. febrúar 2022
Ef það er einhver manneskja hefur opnað faðminn og boðið mér alla fegurð lífsins þá var það Helga Tryggvadóttir í Laufási. Við Sigga þáðum að verða hluti af fjölskyldulífi sem á sér fáa líka í dag. Eyjólfur og Helga voru okkur sem foreldar og við minnumst þeirra á þann hátt. Það voru svo margir fágætir mannkostir sem prýddu Helgu, þessa einörðu konu. Hún var úr umhverfi umhleypinga þar sem lágreist ströndin var nógu há til að veita henni skjól. Það var ekki alltaf auðvelt lífið þegar stúlkan barðist við norðanáttina. Og sorgin skall á eins og alda í Mannskaðaflös sem gekk á land með ógnarafli. Móðir hennar dó við kistulagningu sonar síns og bróður Helgu. Átökin í lífsbaráttunni marka líf fólks sem tekur slíkan ölduskaf í fangið. En áföllin styrktu þessa fallegu manneskju. Hún tókst á við lífið af reisn og bægði frá sér reiði og hatri. Hún fyllti hjarta sitt af kærleika sem hún deildi með öðrum. Í þau fjórtán ár sem við Sigga höfum fengið að njóta samvistar við Helgu hef ég aldrei heyrt hana halla orði að nokkurri manneskju. Hún tók upp hanskann fyrir þá sem minna mega sína eða orðið undir í lífsbaráttunni. Hjó ekki að neinum og lét framhjá sér fara ofríki og völd. Hún þekkir það á eigin skinni að brauðstritið dugði oft bara fyrir deginum í dag. Það voru kröpp kjör, Laufás fullt af börnum og svo voru margir svangir munnar á andlitum sem stóðu biðjandi við hurðarskörina. Helga gaf öllum, frá henni fór enginn svangur eða hræddur. Ró hennar og gæska náði inn fyrir skinnið á þeim sem til hennar komu. Þakklætið er mikið, minningin svo góð um einstaka konu sem var farin að gefa eftir. Líkaminn bogin af öllum burðinum fyrir aðra eftir vegi lífsins. En reisn hennar og tígulleiki bognaði aldrei. Þrátt fyrir vanheilsu tók hún á móti okkur brosandi hvern laugardags- eða sunnudagsmorgun. Hún sat við borðendann í eldhúsinu í Kríulandinu bogin en samt svo teinrétt af stolti yfir sínu fólki. Helga bauð upp á allt sem til var. Þegar ég var búinn að telja fimmtán tegundir á eldhúsborðinu spurði ég stundum hvort þetta væri allt. Nei, það var ekki allt. Það voru stundum fimmtán börn, barnabörn og barnabarnabörn í kaffinu og við Sigga. Hjá góðu fólki er alltaf nóg pláss. Fjölskyldan þekkti ekki annað líf en að heimsækja ömmu í Kríulandið um helgar. Á því heimili hafði orðið fjölskyldubönd merkingu. Ekki í orði eða á jólakortum heldur í samveru fjölskyldunnar við eldhúsborðið. Samvera sem börnin og allir sem nutu búa að í eigin lífi. Ég hefði aldrei viljað missa af þessum tíma þar sem aldrei féll styggðaryrði við nokkurn mann eða um nokkurn mann. Það er veganesti ömmu inn í lífi barnanna gerir hvern einstakling að betri manni. Það komu allir með eitthvað, sjálfan sig í það minnsta. Það var ekki talið fram en fyrir öllu var kvittað í gestabókina. Þar þakkaði ég oft fyrir að vera hluti af kærleiksríkri fjölskyldu, fyrir stundina, lífið og okkur öll. Ég kvitta nú fyrir að ef til er aðalborinn lífsmáti þá er það fjölskyldulíf Helgu Tryggvadóttir frá Laufási.
Vottum fjölskyldunni samúð.
Sigríður og Ásmundur Friðriksson.