Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Heimsóknir til hælisleitenda í Reykjanesbæ
Laugardagur 13. október 2007 kl. 15:53

Heimsóknir til hælisleitenda í Reykjanesbæ

Einu sinni í mánuði förum við ásamt tveim öðrum sjálfboðaliðum í heimsókn til hælisleitenda í Reykjanesbæ. Tilgangur ferðarinnar er að veita félagsskap og nærveru fyrir einstaklinga sem ekki eiga möguleika á að ferðast mikið lengra en innan sveitarfélagsins. Að hafa svo mikið sem ekkert á milli handanna og búa á Íslandi er hægara sagt en gert. Þegar ofaná leggst síðan að kunna ekki tungumál heimamanna, og jafnvel ekki ensku heldur, hlýtur að vera erfitt að aðlagast samfélagi.  Hælisleitendur eru þeir sem hafa yfirgefið heimaríki sitt vegna ástæðuríks ótta, stríðsástands eða ofsókna t.d. vegna trúarskoðana, kynhneigðar eða stjórnmálaskoðana svo dæmi megi nefna.  

Í Reykjanesbæ eru yfirleitt um eða yfir 20 einstaklingar sem eru að bíða eftir úrlausn mála sinna. Í janúar 2007 voru tæplega 760 þúsund hælisleitendur í heiminum og af þeim um það bil 30 hér á landi. Einn hælisleitandi hefur fengið stöðu flóttamanns á Íslandi frá upphafi og var það árið 2000.  Þar fyrir utan er hægt að telja á fingrum annarrar handar þá sem fá dvalarleyfi af mannúðarástæðum ár hvert.

Í heimsóknunum kynnumst við fólki frá hinum ýmsu heimshlutum sem hafa gengið í gegnum ólíkar raunir. Þrátt fyrri það þá mætir okkur alltaf mikil hlýja og gestrisni.  Eins og í heimsóknum til vina og ættingja þá er setið yfir kaffi og spjallað.  Umræðuefnin eru fjölbreytt, allt frá málefnum lýðandi stundar til ástands heimalands viðkomandi. 

Hlutverk okkar er til að mynda að koma með tillögur um úrbætur varðandi aðbúnað hælisleitenda. Auk þess erum við tengiliður við Rauða krossinn um ástand einstaklinga og líðan þeirra.  Í heimsóknum okkar förum við stundum með bækur, tímarit eða eitthvað annað til þess að létta biðina eftir úrskurði yfirvalda. 

Ekki er þetta fjölmennur hópur einstaklinga sem leitar til Íslands eftir vernd og þeir sem koma stoppa stutt en þó getur dvölin orðið nokkur ár ef erfitt reynist að afla upplýsinga eða staðfesta upplýsingar um viðkomandi. Sá tími sem hælisleitendur eyða á Íslandi er viðburðarlítill. Þeir mega að öllu jöfnu ekki vinna nema kauplaust eða í sjálfboðavinnu og hafa fáar leiðir til að koma sér á milli staða.

Þessar heimsóknir hafa gefið okkur innsýn inn í heim sem er algerlega ólíkur okkar eigin.  Við höfum öðlast reynslu og þekkingu sem gerir okkur kleyft til þess að taka betur þátt í umræðu um þessi málefni. 

Í lokin viljum við benda fólki á Norræna herferð sem kallast Keep them safe þar sem yfirvöld eru hvött til þess að taka á málefnum flóttamanna og hælisleitenda með sanngjarnari hætti. Við hvetjum ykkur til þess að skoða heimasíðu herferðarinnar á www.keepthemsafe.org.

Einnig viljum við benda á heimasíðu Rauða krossins www.redcross.is  þar sem hægt er að nálgast frekari upplýsingar um málefnið.

Ingólfur Pálsson
Þóra Kristín Ásgeirsdóttir

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024