Heimir fagnar uppbyggingu álvers í Helguvík
Heimir, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ, fagnar því að Norðurál hafi nú hafið undirbúningsframkvæmdir við uppbyggingu álvers í Helguvík. Undirbúningur að framkvæmdinni hefur staðið yfir síðastliðin fjögur ár og hefur miðað vel. Farið hefur verið ítarlega eftir settum reglum til að tryggja að framkvæmdir gætu hafist á tilsettum tíma. Nú er sú undirbúningsvinna komin á loka stig og framkvæmdir að hefjast. Það væri því algjörlega ótækt af stjórnvöldum að reyna stöðva framkvæmdir nú eftir að hafa unnið jákvætt að verkefninu með Norðuráli í svo langan tíma.
Heimir telur ljóst að tímasetningin framkvæmdanna sé heppileg, miðað við núverandi efnahagsástand, og að framkvæmdin geti spilað veigamikinn þátt í að halda hagvexti jákvæðum. Áætlanir Norðuráls gera ráð fyrir að álverið verð byggt í áföngum og að heildar framkvæmdin muni taka um 6-8 ár sem gerir það að verkum að áhrifin á efnahagskerfið verða mildari.??Gengið hefur verið frá orkusamningum og hafa Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur gefið út að engin óvissa sé um þau mál. Samið hefur verið við Landsnet um orkuflutninga til álversins og er nú verið að ganga frá lausum endum í þeim málum. Einungis þriðjungur útblásturskvótans fer til álversins, svo fullyrðingar um að álver í Helguvík ryðji öðrum framkvæmdum út af borðinu eru fráleitar. Þá hafa öll sveitarfélög á Suðurnesjum lýst yfir stuðningi við verkefnið.
Heimir hvetur umhverfisráðherra til að úrskurða um kæru Landverndar hið fyrsta og þar með hætta að tefja fyrir framkvæmdinni og minnir á að aðeins er um rúmt ár síðan að svæðið missti 900 vel launuð störf við brotthvarf varnarliðsins.
Stjórn Heimis f.u.s., 17. mars 2008.